Færsluflokkur: Bloggar

Af samningum og meintum ólöglegum greiðslum orkufyrirtækja til sveitarfélaga

Fyrir nokkrum dögum voru háværar umræður um meintar ólöglegar greiðslur Landsvirkjunar til sveitarfélaga vegna fyrirhugaðra virkjana við neðanverða Þjórsá. Fleiri sveitarfélög hafa gert svipaða samninga ef ekki mun verri.

Í tengslum við virkjanaframkvæmdir OR á Hellisheiði gerðu OR og Sveitarfélagið Ölfus með sér samning um þau mál sem undirritaður var þann 28. apríl 2006.

 Í 3. grein umrædds samnings segir:

"Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast. Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði."

Í 11. grein sama samnings segir:

"Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið. Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu. Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert. Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er."

Svo mörg eru þau orð. Meti svo hver fyrir sig hvert lögmætið eða a.m.k. siðferðið er að baki þessu.

 


Frá Bitruvirkjun

 

IMG00117

Er það svona sem við sjáum útivistarsvæðið á austanverðri Hellisheiði fyrir okkur á næstu árum? Svo gæti farið ef vilji Sveitarfélagsins Ölfuss nær fram að ganga um skipulag vegna Bitruvirkjunar.


Er þetta nú allt gagnsæið?

Í fréttum RÚV í gærkvöldi birtist stutt frétt sem lét ekki mikið yfir sér. Sagt var frá því að embætti Ríkisskattstjóra hefði lokað á aðgang Jóns Jósefs Bjarnasonar að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá sem hann nýtti til að setja upp og viðhalda stórmerkum og mikilvægum gagnagrunni sínum um vensl fyrirtækja og einstaklinga sem að þeim standa í samfélaginu.

Þetta er vægast sagt hróplegt og ber að mótmæla af fullri hörku og eindrægni!

Jóni virðist hafa verið tjáð þetta af einhverjum embættismanni hjá Ríkisskattstjóra en spurningin er hvaðan þessi fyrirmæli koma? Þessu verður fjármálaráðherra að breyta og jafnframt að svara fyrir ekki síðar en strax á morgun, mánudag!

Almennt vil ég segja það að hinn almenni venjulegi borgari er að verða mjög langeygur eftir einhverjum og ekki bara einhverjum heldur raunhæfum aðgerðum í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu!

Verði ekki eitthvað almennilegt og raunhæft að gert í þeim efnum núna á allra næstu dögum eða í síðasta lagi vikum er ég hræddur um að þessi sami almenningur muni rísa upp gegn stjórnvöldum með þeim hætti að búsáhaldabyltingin virðist hjóm eitt! Reiðin hjá hinum almenna borgara er að verða slík að ekkert skuli gert og traustið í samfélaginu fer sífellt hraðminnkandi og var nú ekki mikið orðið fyrir.


Ánægjuleg frétt!

Það er mjög ánægjuleg frétt að borholur við Hverahlíð á Hellisheiði skuli koma svona vel út. Eins og sjá má í bloggi mínu frá því í fyrradag þá höfum við Hvergerðingar lýst mjög harðri andstöðu við Bitruvirkjun en höfum jafnframt alltaf sagt að við höfum ekkert á móti því að jarðhiti sé virkjaður þar sem náðst getur sátt um slíkt, þvert á móti.

Afar mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að nýta þær auðlindir sem við eigum, jafnt orkuauðlindir sem aðrar náttúruauðlindir, en við verðum alltaf að gera það með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti og í eins mikilli sátt við íbúana og mögulegt er. Bitruvirkjun stangast á við þetta að öllu leiti. Engar þær ráðstafanir sem hægt er að gera eða mótvægisaðgerðir breyta neinu um staðsetningu þeirrar virkjunar sem ein og sér er óásættanleg fyrir Hveragerði auk ýmissa fleiri atriða.

Við í Hveragerði, þ.e. bæjarstjórn fyrir hönd íbúanna, höfum hinsvegar aldrei verið á móti virkjun við Hverahlíð og ég fagna því að þar skuli vera að nást góður árangur í borunum. Áætluð virkjun við Hverahlíð er ekki eins nærri Hveragerði og Bitruvirkjun og ekki í ríkjandi vindátt þangað. Hún er líka fjarri vatnsbólum og vatnsverndarsvæðum Hveragerðis og engin hætta er á mengun þeirra frá virkjun þar að því gefnu að allrar varúðar sé gætt vegna frárennslis og skolvatns.

Mjög mikilvægt er að viðhafa fyllstu aðgát við væntanlegar framkvæmdir við Hverahlíðarvirkjun og fella mannvirki vel að umhverfinu. Jafnframt verður að hreinsa útblástur brennisteinsvetnis og annarra eiturefna frá virkjun við Hverahlíð eins og annarsstaðar þar sem eiturefni eru í gufunni umfram ásættanleg mörk. Um þessi atriði eru skilyrði í skipulagsgögnum Sveitarfélagsins Ölfuss og er það vel.


mbl.is Öflug borhola á Hengilssvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnrýnislaus fréttaflutningur RÚV!

Í kvöldfréttum í sjónvarpinu í kvöld var stutt frétt eða öllu heldur fréttatilkynning sem Ríkisútvarpið birti algerlega gagnrýnislaust. "Fréttin" fjallaði í aðalatriðum um það að nú hefði Sveitarfélagið Ölfus hafið að nýju vinnu við breytingu á aðalskipulagi vegna Bitruvirkjunar og Orkuveita Reykjavíkur hefði hafið að nýju undirbúning að virkjun. Sagt var að sveitarfélagið fullyrti að komið hefði verið á móts við umhverfiskröfur og að strangar kröfur væru gerðar til frágangs.

Það er með ólíkindum að virðuleg stofnun í eigu allra landsmanna eins og RÚV skuli bera svona nokkuð á borð fyrir landsmenn og það í aðal fréttatíma kvöldsins. Það er eins fjarri sanni og hugsast getur að nokkuð það hafi breyst varðandi þessar áætlanir um Bitruvirkjun sem svari þeim kröfum sem gerðar hafa verið og þeirri gagnrýni sem t.d. Hvergerðingar hafa haft uppi varðandi framkvæmdina.

Í raun er málið þannig vaxið að Bitruvirkjun getur aldrei orðið ásættanleg framkvæmd fyrir Hveragerði. Nægir þar að nefna fáein atriði:

  1. Nálægð virkjunarinnar við byggð í Hveragerði er alltof mikil. Í því sambandi ætti að nægja að benda á meðfylgjandi mynd (sjá tengilinn sem er hér neðan við færsluna) sem sýnir samanburð á afstöðu virkjunarsvæðisins við Hveragerði annarsvegar og Þorlákshöfn hinsvegar ef virkja ætti á sambærilegum stað þar.
  2. Útblástur brennisteinsvetnis og annarra eitraðra lofttegunda frá blásandi borholum er ekki og verður ekki hægt að hreinsa. Ennfremur hefur enn ekki verið sýnt fram á hreinsun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun og mælingar sýna að mengunaráhrif í Hveragerði eru talsverð þaðan og frá Nesjavöllum þótt þær virkjanir séu mun lengra frá bænum en Bitruvirkjun yrði og auk þess ekki í ríkjandi vindátt eins og Bitruvirkjun yrði. Auk eiturefna má nefna annað sem lítið hefur verið rætt í umfjöllun og mati á Bitruvirkjun en það er veruleg gufumengun, þ.e. gufuútblástur er mikill frá svona virkjun og af allt öðrum stærðargráðum en áður hefur þekkst í Hveragerði eða nágrenni. Slík mengun er líka áhyggjuefni með tilliti til veðurfars og sjónmengunar.
  3. Virkjunin er ógnun við eina verðmætustu auðlind nútímans fyrir Hveragerði, þ.e. vatnsbólin þar sem hætta er á mengun þeirra frá afrennslisvatni og frá skolvatni við borun. Minnsti grunur um það að virkjunin geti valdið mengun í vatnsbólum er með öllu óásættanlegur. Ómengað neysluvatn er einhver verðmætasta auðlind sem til er og verður sífellt verðmætari.
  4. Önnur umhverfisáhrif Bitruvirkjunar yrðu óhjákvæmilega mikil og ekkert það hefur gerst sem dregur úr þeim frá því Skipulagsstofnun gaf sitt álit og hafnaði virkjuninni sem óásættanlegri.

Það er með öllu óskiljanlegt að haldið skuli áfram með áform um Bitruvirkjun með framangreint í huga. Hveragerðisbær og íbúar þar og í nágrenninu hafa mjög ríkra hagsmuna að gæta í þessu máli og hefur bæjarstjórn Hveragerðis alfarið og ítrekað lagst gegn framkvæmdinni. Það er með öllu óásættanlegt að nágrannasveitarfélag og orkufyrirtæki skuli ætla sér að valta svona yfir rúmlega 2300 manna sveitarfélag og stofna tilvist þess og grundvallar mannréttindum íbúanna í hættu.

Auk þess hafa fjölmargir málsmetandi aðilar lagst mjög hart gegn þessari framkvæmd og stutt Hvergerðinga í þeirri baráttu sem þeir hafa háð og ennfremur fært enn fleiri rök gegn framgangi málsins.

Ég vil hvetja fjölmiðla til að kynna sér allar hliðar þessa máls áður en þeir lepja upp það sem hentar virkjunaraðilunum. Ég vil ennfremur hvetja íbúa Ölfuss og okkar ágætu nágranna til að kynna sér málið og það hvernig bæjaryfirvöld í þeirra sveitarfélagi haga sér gagnvart nágrannasveitarfélaginu og í raun a.m.k. hluta íbúa síns eigin sveitarfélags líka.

Það er nóg komið af 2007 hegðun í þessu samfélagi og ættu flestir að hafa lært af biturri reynslu að það þarf að skoða allar hliðar máls vel áður en áfram er vaðið í villu og svíma og að það ber að hlusta á og taka mið af málefnalegri gagnrýni. Ef það hefði verið gert á ýmsum sviðum undanfarin ár þá væri þjóðin ekki eins illa stödd og raun ber vitni núna.

Bitruvirkjun er ekki til þess fallin að bjarga íslensku þjóðfélagi eða efnahag, til þess eru margir aðrir og mun betri kostir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað er erfiðleikum háð?

Fréttinni um innheimtumál Kaupþings gegn Björgólfsfeðgum lýkur í næstsíðustu setningu með mjög undarlegri fullyrðingu: "...slíkt sé þó oft erfiðleikum háð" og virðist þá vísað til þess að það sé einhverjum sérstökum erfiðleikum háð að ná til eigna umræddra Björgólfsfeðga vegna skulda þeirra.

Hvað í ósköpunum er eiginlega átt við með þessu og hversvegna í veröldinni er verið að hnýta þessu þarna við? Er þetta haft eftir fulltrúum Kaupþings eða eitthvað sem Stöð 2 fann upp?

Ef um væri að ræða venjulegan Meðaljón væri þetta allavega ekki "erfiðleikum háð". Það er sjálfsögð krafa almennings á Íslandi að ekkert verði gefið eftir í þessu máli fremur en öðrum málum gagnvart þeim sem brotið hafa af sér í aðdraganda hrunsins. Það er alveg klárt að umræddir feðgar voru gerendur í aðdraganda hrunsins og eiga ekki að meðhöndlast með neinum silkihönskum.

Í raun ætti að setja sérstök lög um kyrrsetningu eigna þessara manna og annarra sem sæta rannsókn vegna hrunsins sem gæfu möguleika á að taka þær eignir sem til næst án frekari tafar. Vera má að slíkt væri "erfiðleikum háð" en ég vona að það sé verið að skoða slíkt í fullri alvöru. Brot þessara manna gegn þjóðinni eru slík að stjórnvöldum ber skylda til að beita öllum löglegum leiðum til að ná af þeim því sem hægt er.

Ég frábið mér að talsmenn eignarréttar (t.d. þingmenn Sjálfstæðisflokksins) fari að reyna að malda í móinn hvað þetta varðar, þessi brot eru því miður með þeim hætti að það verður að horfa framhjá slíku og beita óvenjulegum leiðum eftir því sem kostur er.

Best væri auðvitað ef þeir sem mest hafa unnið til saka gagnvart þjóðinni í þessu sambandi kæmu sjálfir fram og bæðust afsökunar og skiluðu því sem þeir gætu til baka í þjóðarbúið. Þeir yrðu menn af meiri við slíkt en það má þó ekki dragast öllu lengur ef einhverskonar von á að verða um fyrirgefningu.

Icesave málið hefur tröllriðið umræðunni undanfarið sem hefur valdið því að athyglin hefur beinst mest að Landsbankanum og þeim sem þar réðu ráðum. Það má ekki gleymast að það eru fleiri aðilar sem þarf að fjalla um og rannsaka.

Þeir aðilar sem vinna að rannsóknum á hruninu og saksókn vegna hugsanlegra brota í nafni þjóðarinnar  hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna og þá ber að styðja í hvívetna. Það er lífsnauðsynlegt fyrir framtíð og frið í íslensku samfélagi að aðdragandi og ástæður hrunsins séu gerðar upp.

Refsingar eru kannski ekki endilega lífsnauðsynlegar en uppgjör verður að fara fram og þeir sem eiga mestan þátt í því sem gerðist verða að leita sátta við þjóðina hvernig sem þeir gera það. Trúverðug afsökunarbeiðni og skil á því sem menn geta mögulega skilað er líka ákveðið uppgjör og "refsing" sem mundi stuðla að sáttum við þjóðina.


mbl.is Milljarðalán Björgólfsfeðga í innheimtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður árangur mikillar vinnu

Núverandi stjórnendur Eimskips og aðstoðarmenn þeirra og ráðgjafar eiga mikið hrós skilið fyrir þennan frábæra árangur. Þetta sýnir að unnið hefur verið markvisst og gott undirbúningsstarf undanfarna mánuði og að kröfuhafarnir hafa sýnt félaginu góðan skilning sem ber að þakka. Vonandi er þetta varða á leið íslensks samfélags til bætts efnahags.

Fyrir starfsmenn Eimskipafélagsins er þessi áfangi mikill léttir. Þótt menn hafi ekki verið að velta sér upp úr þessu alla daga og reynt fremur að sinna sínum daglegu störfum af bestu getu þá hefur þessi slæma staða félagsins alltaf verið svífandi yfir og valdið áhyggjum af framtíðinni.

Gylfi, Hilmar, Heiðrún og þið öll hin, til hamingju með þennan góða áfanga!


mbl.is Allir kröfuhafar samþykktu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnst þér þetta skrítið Björgólfur?

Ég ætla ekki út í hártoganir um það hvort frétt Stöðvar 2 var sönn eða login eða e.t.v. sönn að hluta. Það getur meira en vel verið að eigendur þeirra stöðvar hafi vissan hag af því að halda við neikvæðri umfjöllun um þá Björgólfsfeðga svo að athyglin haldist fremur þar en beinist að nýju að þeim. Það er heldur ekkert skrítið að allskyns sögusagnir fari af stað hjá reiðri þjóð.

Þetta breytir hinsvegar ekki þeim staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir varðandi þessa umræddu feðga:

  1. Þeir eru í vanskilum með stóran hluta af því "skitteríi" sem þeir áttu að borga fyrir Landsbankann á sínum tíma. Raunar er það mög sérkennilegt að menn sem sögðust hafa grætt 40 milljarða á sölu verksmiðju í Rússlandi, eftir að hafa farið með rassinn úr buxunum héðan nokkrum árum fyrr, nái ekki að greiða þessa rúmu 11 milljarða á þeim árum sem liðin eru. Getur hugsanlega verið að 40 milljarðarnir hafi ekki allir skilað sér til þeirra feðga?
  2. Það verður ekki af þeim feðgum tekið og þeirra kumpánum að þeir stýrðu Landsbankanum út í það feigðarflan sem nú er að kollkeyra íslensku þjóðina í formi Icesave og allrar þeirrar vitleysu sem því fylgir.
  3. Flest félög sem þessir feðgar komu að a.m.k. hér á landi eru annaðhvort gjaldþrota eða mjög illa löskuð eftir. Ekki var snilldinni fyrir að fara þar.
Björgólfsfeðgar, því miður eigið þið enga samúð inni hjá íslenskri þjóð og ættuð bara að skammast ykkar fyrir það sem þið hafið gert og staðið fyrir. Raunar ættuð þið að skammast ykkar svo mikið og verða þannig menn að meiri að þið skilið þeim peningum sem þið hafið haft af þjóðinni og hafið hugsanlega enn yfir að ráða en því miður held ég að þið standið aldrei undir því að skila til baka því orðspori sem þið hafið haft af íslenskri þjóð. Það verður hún að sjá um sjálf hvað sem öðru líður.
mbl.is Björgólfur Thor: Skipulagður óhróður, véfréttir og lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur verður af aurum api!

Ég hef hingað til forðast að tjá mig mikið um svonefnt Icesave mál enda nógir verið til þess. Ég get hinsvegar ekki orða bundist yfir viðbrögðum Hollendinga og hótunum þeirra í okkar garð. Því miður sannar sig þarna enn einu sinni máltækið að margur verður af aurum api og Hollendingar láta aurana stýra sér í þá lögleysu sem verið er að troða ofan í almenning á Íslandi með svonefndum Icesave samningi.

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að íslenskur almenningur er ekki ábyrgur á neinn hátt fyrir gjörðum þeirra fjárglæframanna sem stýrðu Landsbankanum út í þetta feigðarflan og hvað þá fyrir græðgi þeirra fjármagnseigenda sem létu blekkjast til að taka þátt í leiknum í von um að græða aðeins meira. Það hefur löngum verið sannleikur að fé fer þar sem fé er fyrir en þeir sem græða mikið vilja nær alltaf meira og á endanum fer oftast illa einsog dæmin sanna.

Ég held að Hollendingar ættu nú að líta fremur í eigin barm en ekki láta stjórnast af blindri fégræðgi í samskiptum við íslensku þjóðina. Þeir sem lögðu peninga á Icesave reikningana voru að sækjast eftir mjög háum vöxtum sem boðnir voru af EINKAFYRIRTÆKI með þeirri áhættu sem því fylgir en EKKI með ríkisábyrgð þannig að íslenskur almenningur ætti að borga brúsann þegar illa færi.

Nær hefði verið fyrir þetta fólk að gæta að sér og meta aðeins á hverju þessi vaxtatilboð byggðust og taka þá ekki áhættuna. Maður á ekki að taka óþarfa áhættu með fé sem maður hefur ekki efni á að tapa. En fyrst þeir tóku áhættuna verða þeir að sitja uppi með sárt ennið.

Hitt er svo annað mál að við Íslendingar erum stórmannleg þjóð og erum tilbúin að semja um þessi mál á sanngjörnum grunni við þær þjóðir sem í hlut eiga. Þótt þjóðin hafi ekki sem slík valdið þessum hörmungum berum við nokkra siðferðislega ábyrgð og viljum eiga góð samskipti við aðrar þjóðir en það verður að vera á jafnræðisgrunni og lagalegum en ekki í formi hótana og yfirgangs.

Þá vil ég nú heldur búa í moldarkofa en að láta kúga mig til undirgefni.


mbl.is Gagnrýna utanríkisráðherra ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ný framtíðarsýn" - góð bók - mæli með henni!

Ég var að enda við að lesa afar góða bók sem er nýkomin út, þ.e. Ný framtíðarsýn eftir Þorkel Sigurlaugsson. Nærri því hvert orð í þessari bók er einsog talað út úr mínu hjarta.

Eitt atriði sem fram kemur í bókinni vil ég sérstaklega nefna, þ.e. hugtakið "Natural Capitalism" eða það sem mætti e.tv. nefna umhverfisauðhyggju á íslensku. Samkvæmt þeirri hugsun sem að baki liggur samanstendur auðurinn sem við byggjum efnahag okkar á af fjórum megin stoðum:

  • Mannauður
  • Fjárauður
  • Efnisauður
  • Náttúruauður

Um nánari skilgreiningu vísa ég á blaðsíðu 192 í bók Þorkels. Til þess að  mannkynið geti áfram lifað á Jörðinni verðum við að gæta að öllum þessum þáttum. Á liðnum áratugum höfum við verið of upptekin af fyrstu þremur atriðunum en að verulegu leiti gleymt að passa upp á náttúruauðinn. Því þarf núna að breyta.

Við þurfum að passa okkur að detta ekki inn í einhverja ríkisvæðingu til frambúðar með þeirri stöðnun og jafnvel hnignun sem því mundi fylgja. Við verðum áfram að byggja á frelsi einstaklingsins og vilja til að hagnast en um leið að setja því þær skorður og sem þarf og eftirlit sem virkar!

Jörðin og gögn hennar og gæði er eina umhverfið sem mannkynið hefur til að lifa í og hennar þarf að gæta einsog fjöreggs hvað sem líður öllum hagtölum og efnahag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband