Færsluflokkur: Bloggar
7.7.2009 | 12:49
Það er eitthvað mikið að!
Nú berast þær fréttir að svonefndir Björgólfsfeðgar hafi gert Nýja Kaupþingi tilboð um að greiða innan við helming af 6 milljarða (6 þúsund milljóna) skuld sem þeir skulda bankanum. Það sem meira er er að svo virðist sem stjórn bankans telji þetta bara ágætt tilboð! Hvað er eiginlega að? Er dómgreind manna gjörsamlega fyrir bý?
Auðvitað eiga þessir menn að sitja við sama borð og aðrir og þessi skuld einsog aðrar að innheimtast eftir eðlilegum og lögbundnum leiðum. Þessa peninga á að sjálfsögðu að sækja í eignir þessara manna. Ekki þýddi fyrir mig eða aðra almenna borgara þessa lands að reyna að semja um svona afslátt á skuldum öðruvísi en að gera upp eignirnar og fara í nauðasamninga eða gjaldþrot.
Svo dettur slitastjórn SPRON í hug að greiða ekki fyrrverandi starfsmönnum bankans laun á uppsagnarfresti einsog lög gera ráð fyrir. Þetta er sömuleiðis stórfurðuleg ráðstöfun og ættu þessir menn í slitastjórninni bara að taka pokann sinn ef þeir eru ekki starfi sínu vaxnir. Þetta fólk er búið að lenda í nægum hremmingum með því að þeirra ágæti vinnustaður var eyðilagður af fáum einstaklingum.
Það er stórundarlegt að það skuli í sífellu berast fréttir í þessa veru út úr bankakerfinu? Reynið nú að fara að vinna heiðarlega og hafa siðferðið í lagi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.7.2009 | 20:02
Kristján Möller skóflan er tilbúin!
Kristján Möller samgönguráðherra lýsti því yfir í Kastljósinu núna áðan að framkvæmdir muni hefjast við tvöföldun Suðurlandsvegar ekki seinna en í október. Ég veit að það bíður sérsmíðuð og sérmerkt skófla eftir honum til að taka fyrstu skóflustunguna.
Það er bara þannig Kristján að ef menn tjá sig ekki með skýrum hætti þá er hætt við að það sem haft er eftir þeim verði ekki rétt. Suðurlandsvegurinn er það stórt og mikilvægt mál fyrir svo marga að hverskyns efasemdir um efndir á tvöföldun kalla á mjög sterk viðbrögð. Nú skulum við ekki láta þetta fara meira á milli mála framar og tjá okkur með skýrum hætti með því að láta verkin tala!
STATTU ÞIG DRENGUR og láttu ekki bíða eftir þér!
Bloggar | Breytt 7.7.2009 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2009 | 12:25
Setja málið í nefnd!
Það er með öllu óskiljanlegt að samgönguyfirvöld skuli ekki geta farið af stað með breikkun Suðurlandsvegar án frekari tafar. Svo virðist sem ríkisvaldið ráði einfaldlega ekki við það stjórnsýslulega ef fara á með svona framkvæmd í einkaframkvæmd. Getur verið að embættismannakerfið sé að spyrna við fótum, menn séu kannski hræddir um að missa spón úr aski sínum og að það komi niður á okkur almennum borgurum?
Ég man ekki betur en að það sé búið að vera að "vinna að og skoða" leið einkaframkvæmdar með Suðurlandsveginn í a.m.k. 2 ár og nú á enn að "setja saman starfshóp" um málið. Eftir það sem á undan er gengið núna í vetur og í aðdraganda hrunsins hlýtur maður að spyrja hvort íslenska stjórnkerfið er almennt starfi sínu vaxið?!
Sunnlendingar þrýsta á um úrbætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2009 | 16:22
Aulahrollur!
Ég var þátttakandi í fundi sem samgönguráðherra boðaði til þann 25. mars síðastliðinn með sveitarstjórnarmönnum og fleirum í ráðuneytinu. Ég fjallaði um fundinn og fagnaði honum mjög í bloggi þennan sama dag. Núna hríslast um mig aulahrollur fyrir að hafa klappað ráðherranum og vegamálastjóra lof í lófa á umræddum fundi og fagnað svo í kjölfarið á blogginu!
Hvað er að?! Er ráðherrann ekki með fullu viti, ætlar hann virkilega að slá málinu á frest enn einu sinni og láta vegfarendur á Suðurlandsvegi ýmist spila áfram rússneska rúllettu með líf sitt og sinna eða silast áfram á vegi sem engan veginn ber það álag sem á honum er?! Ætlar hann að endurtaka leikinn með Héðinsfjarðargöngin og taka Vaðlaheiðargöng og fleira í sínu kjördæmi fram yfir það að byrja á lífsnauðsynlegri tvöföldun Suðurlandsvegar, gefa þeim fjölda landsmanna sem nota þann veg langt nef og kaupa sér atkvæði í sínu kjördæmi fyrir almannafé á þessum erfiðu tímum?!
Ég ætla ekki að tala niður framkvæmdir annarsstaðar á landinu, allt er þetta nauðsynlegt og þarft en núna þegar þarf virkilega að forgangsraða á að GERA ÞAÐ FYRST SEM KEMUR FLESTUM AÐ GAGNI og bjargar mörgum mannslífum!
Framkoma ráðherrans í þessu máli er svo ómerkileg að ekki tekur nokkru tali. Hann heldur fund með hagsmunaaðilum og fær klapp á bakið fyrir að hafa komið góðu máli í höfn og svíkur svo alltsaman og ekki vegna kreppunnar, nei heldur vegna þess að hann vantar atkvæði í sínu kjördæmi. Hann er að fá 100 milljarða í framkvæmdafé frá OKKAR LÍFEYRISSJÓÐUM og gerir ekki svo lítið að nefna Suðurlandsveginn eða Vesturlandsveginn í því sem hann hyggst gera, nei hann fer beint í kjördæmapotið!
Kristján Möller ég ætlast til að þú biðjir okkur sveitarstjórnarmenn persónulega afsökunar á því að hafa blekkt okkur og snúir af villu þíns vegar tafarlaust og setjir allt í gang til að klára undirbúning að tvöföldun Suðurlandsvegar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2009 | 15:56
Blóm í bæ um helgina
Þessa dagana er allt á fullu í Hveragerði við að leggja lokahönd á undirbúning fyrir blómasýninguna Blóm í bæ sem haldin verður núna um næstu helgi, dagana 26.-28. júní. Fjölmargir aðilar koma að sýningunni og mun hún verða hin glæsilegasta. Ekki síst mun bærinn skarta sínu fegursta.
Fjöldi manns hefur lagst á eitt við að gera þessa sýningu að veruleika og í anda kreppunnar hefur verið reynt að gera alla hluti með sem hagkvæmustum hætti. Fjölmargir bæjarbúar hafa tekið sig til og gert átak í garðinum sínum allt í anda blómabæjarins.
Sjá má nánar um dagskrá helgarinnar hér.
Sérstaklega má nefna smágarðasamkeppnina, lifandi raunverulegt brúðkaup á bökkum Varmár, harmónikkutónlist, íslenskan grænmetismarkað, blómaskreytingar og fjölmargt fleira.Veðurspáin er afar góð fyrir helgina og um að gera að skella sér í Hveragerði og njóta fallegra blóma, umhverfis og mannlífs.
Benda má á að í Hveragerði er eitt besta tjaldsvæði landsins og tilvalið að planta ferðaheimilinu þar um helgina.
Einnig má geta þess að á laugardeginum kl. 11 mun verða vígt svonefnt trjásafn á skógræktarsvæðinu undir Hamrinum. Safnið er á því formi að nokkur tré hafa verið merkt með nafni og ýmsum fleiri upplýsingum og geta gestir skógarins því rölt um og glöggvað sig á tegundum, vaxtarhraða, uppruna o.fl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2009 | 16:39
Ræða forseta bæjarstjórnar í Hveragerði 17. júní 2009
Birti hér að neðan til gamans ræðu sem ég flutti fyrr í dag sem forseti bæjarstjórnar Hveragerðis:
Kæru bæjarbúar og gestir,
Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum til hamingju með daginn og þennan fallega bæ okkar sem við megum öll og eigum að vera stolt af.
Það er ekki til fyrirmyndar að vitna í sjálfan sig en þó langar mig að gera það í þetta skiptið. Í ræðu minni hér á þessum stað á 17. júní 2006 sagði ég eftirfarandi:
Síðustu ár hefur oft hvarflað að mér að við séum að missa sjónar á því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Það eru stærstu og mestu fréttirnar í fjölmiðlum þegar hlutir í fyrirtækjum skipta um eigendur, hvernig þróun er á fjármálamörkuðum á hverjum tíma eða hvernig baráttan gengur um völdin í samfélaginu. Þetta eru allt mikilvægir hlutir og hafa sitt að segja um það hvernig þjóðfélaginu og þar með okkur gengur að lifa af.
Peningar eru hreyfiafl. Peningar eru ekki tilgangur í sjálfu sér en þeir eru nauðsynlegt tæki til að lifa af og til að ná fram þeim úrbótum sem við viljum gera á umhverfi okkar og aðstæðum. Við megum ekki missa sjónar á því sem raunverulega skiptir máli. Hver einstaklingur skiptir máli og er jafn mikilvægur öðrum hversu mikilvægt eða merkilegt sem starf hans eða hlutverk kann að vera að öðru leiti. Hver maður hefur sína sérstöðu, drauma og væntingar til lífsins.
Svo mörg voru þau orð og greinilega í tíma töluð þótt ég segi sjálfur frá. Það hefur sannast rækilega núna undanfarna mánuði.
Því miður hefur umfjöllunin um bankahrunið og afleiðingar þess tekið við og tröllriðið fjölmiðlaumfjölluninni í staðinn.
Auðvitað eru það alltsaman mikilvæg og áríðandi mál að fjalla um og leysa en eigum við ekki að líta okkur nær. Eigum við ekki að rifja upp hvað er okkur mikilvægt í raun og veru?
Við eigum okkar afburða fallega land og öll þess gögn og gæði. Það er heldur ekki úr vegi að leggja áherslu á það á þessum degi að við eigum sjálfstæði þjóðarinnar sem eina okkar dýrmætustu auðlind. Um það verðum við að standa vörð hvað sem á dynur.
Við þurfum að sýna samstöðu, hlúa að börnunum og framtíðinni en ekki falla í gryfju svartnættis, bölsýni eða hefndarþorsta. Það þarf að sjálfsögðu að draga þá til ábyrgðar sem hana bera og hafa brotið af sér en um leið verðum við að muna það að við flutum langflest sofandi að feigðarósi og í raun hlaut ævintýrið að enda einsog lagt var upp með.
Hveragerðisbær er sterkt samfélag með skýra framtíðarsýn. Við viljum vera umhverfisvænt, menningarlegt og mannvænt bæjarfélag þar sem öllum íbúum og gestum líður sem allra best.
Við viljum hlúa sem best að ungviðinu og öllum sem minna mega sín. Við viljum búa öldruðum gott ævikvöld. Við viljum skapa atvinnulífi bæjarins góðan jarðveg til að vaxa og dafna. Við viljum vera bæjarfélag sem hefur jákvæð áhrif á þjóðfélagið allt, bæjarfélag sem smitar út góðum gildum. Hingað eiga gestir að geta sótt bæði hvíld og kraft til að takast á við hversdaginn. Héðan eiga að koma vörur og áhrif sem við getum öll verið stolt af.
Við börnin vil ég segja þetta: Krakkar, þið búið í besta landi í heimi, njótið þess alla daga í leik og starfi, Íslandi allt!
Ég vil að lokum þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa að undirbúningi hátíðarhaldanna hér í dag og óska ykkur öllum enn og aftur gleðilegrar þjóðhátíðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2009 | 16:51
Skortur á upplýsingum til almennings
Mikið er fjallað um það þessa dagana og raunar alveg frá því hrunið varð að það vanti upplýsingar til almennings. Hvert er eiginlega vandamálið í þessu? Við erum með Ríkisútvarp sem hefur skyldum að gegna.
Hversvegna er ekki án tafar settur á fót 20 mínútna þáttur í sjónvarpi t.d. strax að loknu Kastljósinu þar sem farið væri yfir t.d. þær leiðir sem standa skuldugum heimilum til boða?
Þetta þarf ekki að vera dýrt sjónvarpsefni þar sem sagt væri frá því á mannamáli hvaða leiðir standa almenningi til boða. Þarna mætti líka fjalla um vandann sem við stöndum frammi fyrir og hvaða leiðir er verið að fara út úr honum.
Þetta mætti allsekki vera eitthvert pólitískt karp því að af því er þegar meira en nóg, heldur einfaldlega umfjöllun um afmarkað efni á hverju kvöldi þar sem fram kæmu uppbyggjandi upplýsingar með skýrum dæmum um það sem hægt er að gera.
Ég hvet stjórnvöld til að láta RÚV setja svona upplýsingaþátt á dagskrá sjónvarpsins sem allra fyrst daglega næstu vikurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 20:34
Styrkjaumræðan
Því miður virðist stór hluti umræðunnar fyrir þessar kosningar fjalla um þá styrki sem stjórnmálaflokkar og frambjóðendur þeirra hafa þegið á liðnum árum. Ljóst er af því sem fram hefur komið að styrkjaframlög hafa verið komin langt yfir öll velsæmismörk. Ég held að stjórnmálamönnum hafi verið orðið þetta ljóst þegar árið 2006 og því komust þeir að samkomulagi um lög um fjármál stjórnmálaflokka.
Til þess að skapa traust og trú á stjórnmálunum þarf að opna öll gögn um fjármálaumhverfi stjórnmálamanna og flokka á síðustu árum, jafnvel allt frá 2001 þegar þensluskeiðið hófst sem lauk með bankahruninu í haust. Þetta næst væntanlega ekki fyrir kosningarnar núna en það koma aðrar kosningar eftir þær og þá þarf þetta allt að liggja skýrt fyrir.
Ég held að núna þurfum við hinsvegar að hefja okkur upp yfir þessa umræðu og snúa okkur að þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífinu. Við þurfum að velja eins vel og okkur er unnt það stjórnmálaafl sem við trúum að geti unnið að því að koma okkur í gegnum hremmingarnar.
Ég trúi því að langflestir ef ekki allir sem bjóða sig fram til forystu í stjórnmálum vilji vel. Hinsvegar eru áherslurnar og leiðirnar misjafnar og við verðum að horfa til þess hvaða stefna eða stefnur hafa skilað okkur mestu í fortíðinni. Því miður hefur vinstri stefna ekki skilað okkur árangri hingað til og mun ekki gera það. Við höfum brennt okkur á slíkum stjórnum þótt langt sé orðið síðan síðast þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystu síðustu 18 árin. Auðvitað getum við gert eina tilraunina enn en viljum við það raunverulega?
Við megum ekki láta reiði yfir mistökum sem gerð hafa verið á undanförnum árum blinda okkur þannig að við sjáum ekki að margt var rétt og vel gert. Þjóðfélagið var opnað, fjármagn til velferðarmála var aukið verulega, kaupmáttur jókst mikið, skattar voru lækkaðir, frelsi var aukið og tækifærin voru mikil. Við höndluðum aukið frelsi ekki að öllu leiti en við getum lært mikið af því og nýtt okkur til framtíðar.
Við eigum ekki að fórna sjálfstæði eða sjálfsforræði þjóðarinnar á altari reiðinnar eða hræðslunnar. Við erum kjarkmikil og kraftmikil þjóð sem vel getur risið úr öskustónni á eigin forsendum og orðið fyrirmyndarþjóð að nýju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 11:13
Björgvin G. farinn í felur?
Á borgarafundinum á Selfossi í fyrradag var athygli vakin á greinarkorni sem var á heimasíðu Björgvins G. Sigurðssonar, fyrsta manns á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Í tilvitnuninni sem lesin var á fundinum mærði Björgvin mjög útrásarvíkingana og bankana en þetta var ritað í ágúst rétt fyrir hrunið á spilaborginni.
Ég ætlaði að kíkja á þessi skrif núna áðan en þá er búið að loka umræddri vefsíðu eða hún sögð vera í endurskoðun (www.bjorgvin.is)!
Björgvin var ábyrgur fyrir Fjármálaeftirlitinu sem viðskiptaráðherra síðustu tæpu tvö árin fyrir hrunið. Er þessi maður trúverðugur leiðtogi í kjördæminu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2009 | 13:32
Hvernig skapast aukin atvinna?
Eitt af því allra mikilvægasta sem íslensk þjóð þarf á að halda núna er uppbygging atvinnutækifæra. Vinstri flokkarnir hafa ekki margt fram að færa í þeim efnum. Það eina sem þeim dettur í hug sem lausn á vandanum er að reyna að skattleggja þjóðina meira og lækka laun hjá ríkisstarfsmönnum.
Það gæti í sjálfu sér verið ágætt að spara með því að lækka laun hjá ríkisstarfsmönnum en þá þarf að skoða afleiðingarnar og hvað í raun kemur út úr því. Við fyrstu sýn gæti t.d. 10% lækkun launa þýtt yfir 12 milljarða sparnað en þegar málið er skoðað nánar, t.d. hversu mikill hluti launanna skilar sér aftur í ríkiskassann og til sveitarfélaga þá stendur ekki nema um helmingur þessarar fjárhæðar eftir.
Það er í raun einfalt hvernig skapa á ný störf:
- Efnahagsumhverfið þarf að vera stöðugt
- Vextir þurfa að vera viðráðanlegir
- Skattar á fyrirtæki mega ekki vera of háir
- Skattar á einstaklinga mega ekki drepa niður frumkvæðisviljann
- Menntakerfið þarf að vera öflugt og geta af sér nýsköpun og ný tækifæri
- Ríkið þarf að vera öflugt við að taka á móti nýjum tækifærum utanfrá (stóriðja o.fl.)
- Nýsköpunarsjóðir þurfa að vera öflugir og opnir fyrir nýjum tækifærum
Séu framangreindir þættir í lagi blómstra einstaklingarnir og búa til ný tækifæri á færibandi. Sé þetta umhverfi hinsvegar ekki í lagi mun ekkert gerast. Atvinnutækifæri verða ekki til á skrifstofum stjórnmálaflokka eða á Alþingi. Þessir aðilar eiga að einbeita sér að því að tryggja umhverfið en láta einstaklingsframtakið um rest.
Stóriðja hefur skapað fjölmörg atvinnutækifæri hér á síðustu áratugum og mun gera það áfram ef rétt er á málum haldið. Slík uppbygging þarf að sjálfsögðu að gerast í sátt við umhverfið en um leið má ekki drepa hana niður með of flóknu kerfi.
Allir sem til þekkja hljóta að viðurkenna að uppbyggingin á Austurlandi í kringum Alcoa hefur valdið byltingu í atvinnumálum á því svæði. Þótt það megi e.tv. benda á einhverja neikvæða þætti og tómar íbúðir o.þ.h. eru það smámunir miðað við þau jákvæðu áhrif sem þetta hefur. Það þekki ég af eigin reynslu.
Sú aðferðafræði sem Vinstri grænir fylgja mun ekki stuðla að atvinnuuppbyggingu. Fái þeir að ráða munum við skrúfast niður í langvarandi kreppu og fátækt. Þeir eru á móti því að við nýtum orku landsins og hleypum hér inn stóriðjufyrirtækjum.
Það er að sumu leiti skiljanlegt að fólk hneigist til að kjósa VG vegna þess að hann er alger andstæða þeirrar þróunar sem orðið hefur á undanförnum tveimur áratugum. Hann hefur verið samkvæmur sjálfum sér við að vera á móti flestu. Það má hinsvegar ekki gleymast að hagur þjóðarinnar hefur aldrei verið betri og atvinna aldrei meiri en á þessum tíma. Við höfum haft það mjög gott en það voru gerð mistök sem ollu því á endanum að illa fór.
Samfylkingin er í raun ekki stjórntæk, hún stendur ekki saman og hefur í raun enga haldbæra stefnu. Þetta sýndi sig við hrunið í haust, þegar formaðurinn veiktist stóð ekki steinn yfir steini og flokkurinn molnaði í sundur. Það eina sem Samfylkingin virðist hafa fram að færa er ESB. Maður hlýtur að velta fyrir sér hversvegna þjóðir eins og t.d. Írland og Ítalía ganga ekki inn í ESB núna þar sem þær eru í megnustu vandræðum, jú það er vegna þess að þær eru þar nú þegar.
Framsóknarflokkurinn er flokkur sem vel má treysta til að byggja upp atvinnu, það hefur hann sýnt á liðnum árum. Hann hefur endurnýjað sig talsvert og hefur vonandi sagt skilið við S hópa og slíkt.
Borgarahreyfingin er í raun óánægjuframboð vegna ástandsins en óskrifað blað að öðru leiti.
Ég eyði ekki orðum á svokallaða Lýðræðishreyfingu.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur atvinnuuppbyggingar, því getum við treyst. Hvað sem má segja um fortíðina og þau mistök sem gerð hafa verið á undanförnum árum. Margir hafa kennt flokknum um það sem úrskeiðis fór og vissulega á hann sinn hlut af sökinni. Það hefur flokkurinn viðurkennt og farið í gegnum í vetur.
Við verðum líka að viðurkenna að það var við mjög ramman reip að draga að gera eitthvað gegn þeirri þróun sem átti sér stað síðustu 5-6 árin. Þar má minna á Baugsmálið, fjölmiðlafrumvarpið, umræðu um samþjöppun á matvælamarkaði, úttekt Davíðs á 400 þúsund krónunum í Kaupþing o.m.fl. Allt var þetta túlkað þannig að flokkurinn væri á móti einstökum fyrirtækjum og einstaklingum!
Vissulega hef ég einsog aðrir farið í gegnum reiðina og sárindin í vetur. Ég hef orðið reiður út í Sjálfstæðisflokkinn og forystu hans. En þegar ég hef síðan farið í gegnum málin og kynnt mér það sem að baki liggur þá hef ég séð hvernig við flutum sofandi að feigðarósi og það hefði í raun verið alveg sama hvað Sjálfstæðisflokurinn hefði gert, það hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir það sem gerðist. Til þess var aldan of stór og það mátti ekkert segja eða gera.
Mín niðurstaða er skýr, ég get ekki kosið annað en Sjálfstæðisflokkinn ef ég hugsa um framtíðina og þá uppbyggingu sem nauðsynleg er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)