Hvers eiga Hvergerðingar og nágrannar að gjalda gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur?

Hitaveita Hveragerðis var tekin yfir af OR fyrir smánarlegt kaupverð árið 2003. Það er ekki mikið fullyrt að segja að þarna var um mjög vafasaman gjörning að ræða sem Hvergerðingar munu líða fyrir um ókomna framtíð. Raunar var þessi gjörningur þess eðlis að hann ætti að rannsaka og kæra ekki síður en svo marga aðra gjörninga misviturra manna á seinni árum.

Hitaveitugjöld í Hveragerði hafa stórhækkað frá árinu 2008 og Hvergerðingar þannig látnir súpa seiðið af glæfralegri skuldasöfnun og slæmum rekstri OR sem bæjarfélagið á ekkert í. Skuldir OR eru um 250 milljarðar og svo miklar að taka verður þær út fyrir sviga þegar fjallað er um allar skuldir sveitarfélaga á Íslandi. OR hefur tekist að spila svo rassinn úr buxunum í fjármálum og rekstri að ekki tekur nokkru tali.

OR hefur rembst einsog rjúpan við staurinn að fá leyfi til að virkja á Bitru þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á að það muni rýra mjög loftgæði í Hveragerði og hafa ýmis önnur neikvæð áhrif fyrir íbúa Hveragerðis og nágrennis. Er þó þegar meira en nóg komið af mengun frá núverandi virkjunum og hvað þá heldur þeim sem þegar hefur verið veitt vilyrði fyrir.

Hveragerðis og áhrifa af virkjunum þar er vart getið í umhverfismati fyrir virkjanir á Hellisheiði. Hver skyldi ástæðan vera fyrir því? Eru áhrifin kannski svo mikil að aðilar treysta sér ekki til að setja þau fram?

Núna er svo komið að það skelfur hér allt og nötrar í orðsins fyllstu merkingu af völdum niðurdælingar á vatni frá Hellisheiðarvirkjun einni hvað þá þegar aðrar hafa bæst við. Með þessu er OR að grípa inn í náttúruna með ófyrirséðum hætti og valda íbúum Hveragerðis og nágrennis verulegum óþægindum og tjóni. Við erum að upplifa jarðskjálfta af völdum OR allt að 4 á Richter skala og gætu orðið stærri. Er OR borgunaraðili fyrir þessu tjóni sem hún er að valda íbúum, ég segi nei!

Ég endurtek: Hvers eiga Hvergerðingar og nágrannar að gjalda gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband