Margur verður af aurum api!

Ég hef hingað til forðast að tjá mig mikið um svonefnt Icesave mál enda nógir verið til þess. Ég get hinsvegar ekki orða bundist yfir viðbrögðum Hollendinga og hótunum þeirra í okkar garð. Því miður sannar sig þarna enn einu sinni máltækið að margur verður af aurum api og Hollendingar láta aurana stýra sér í þá lögleysu sem verið er að troða ofan í almenning á Íslandi með svonefndum Icesave samningi.

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá að íslenskur almenningur er ekki ábyrgur á neinn hátt fyrir gjörðum þeirra fjárglæframanna sem stýrðu Landsbankanum út í þetta feigðarflan og hvað þá fyrir græðgi þeirra fjármagnseigenda sem létu blekkjast til að taka þátt í leiknum í von um að græða aðeins meira. Það hefur löngum verið sannleikur að fé fer þar sem fé er fyrir en þeir sem græða mikið vilja nær alltaf meira og á endanum fer oftast illa einsog dæmin sanna.

Ég held að Hollendingar ættu nú að líta fremur í eigin barm en ekki láta stjórnast af blindri fégræðgi í samskiptum við íslensku þjóðina. Þeir sem lögðu peninga á Icesave reikningana voru að sækjast eftir mjög háum vöxtum sem boðnir voru af EINKAFYRIRTÆKI með þeirri áhættu sem því fylgir en EKKI með ríkisábyrgð þannig að íslenskur almenningur ætti að borga brúsann þegar illa færi.

Nær hefði verið fyrir þetta fólk að gæta að sér og meta aðeins á hverju þessi vaxtatilboð byggðust og taka þá ekki áhættuna. Maður á ekki að taka óþarfa áhættu með fé sem maður hefur ekki efni á að tapa. En fyrst þeir tóku áhættuna verða þeir að sitja uppi með sárt ennið.

Hitt er svo annað mál að við Íslendingar erum stórmannleg þjóð og erum tilbúin að semja um þessi mál á sanngjörnum grunni við þær þjóðir sem í hlut eiga. Þótt þjóðin hafi ekki sem slík valdið þessum hörmungum berum við nokkra siðferðislega ábyrgð og viljum eiga góð samskipti við aðrar þjóðir en það verður að vera á jafnræðisgrunni og lagalegum en ekki í formi hótana og yfirgangs.

Þá vil ég nú heldur búa í moldarkofa en að láta kúga mig til undirgefni.


mbl.is Gagnrýna utanríkisráðherra ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband