Færsluflokkur: Bloggar
10.1.2010 | 22:33
Takk fyrir góða grein til varnar Íslendingum!
Það ber að þakka því fólki sem staðið hefur vaktina fyrir Íslendinga í þessu Icesave máli og þá ekki síst InDefence hópnum. Þessi grein Magnúsar Árna er vel skrifuð og tekur á megin atriðunum í vörnum okkar varðandi Icesave kúgunina og það óréttlæti sem verið er að reyna að beita okkur. Það er ómetanlegt að eiga svona fólk sem er tilbúið að fórna tíma sínum og nota skynsemi sína til að vinna með þessum hætti fyrir þjóðina á neyðarstundu.
Vitanlega skömmustum við okkar fyrir þessa bankaorma sem hafa stórskaðað álit þjóðarinnar erlendis. Þá verður að sækja til saka sé það mögulegt eftir löglegum leiðum á grundvelli réttarríkisins. Þar með er ekki sagt að við eigum að borga allan brúsann því að það var fleira sem klikkaði en íslenska eftirlitið og íslensk stjórnvöld.
Skammast sín fyrir bankana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2010 | 21:57
Óskiljanleg afstaða!
Afstaða stjórnarflokkanna í þessu Icesave máli er algerlega óskiljanleg. Það er að verða ljósara með hverjum deginum að við eigum ekki að borga þessar kröfur, það er þrotabú gamla Landsbankans sem á að standa undir því sem hægt er og svo afskrifast restin, þannig er einfaldlega lögmál markaðarins.
Það voru hugsanlega mistök hjá Hollendingum og Bretum að borga innistæðurnar út en með því gerðu þeir í raun svipaðan eða hliðstæðan hlut og við með neyðarlögunum, þ.e. tryggðu innistæður í sínum löndum. Þeirra er að standa undir sínum neyðarráðstöfunum. Við eigum hinsvegar klárlega kröfu á bætur frá Bretum vegna þess skaða sem þeir ollu þjóðinni með því að beita hryðjuverkalögunum.
Hafi Bretar og Hollendingar einhvern áhuga á að sækja eitthvað af Icesave "skuldinni" til Íslendinga þurfa þeir að koma til okkar en ekki við til þeirra. Förum nú að skilja það! Óttast fólk virkilega að þeir muni beita frekara ofbeldi í einhverri mynd? Geri þeir það er það verst fyrir þá sjálfa, þeim mun ekki verða liðið slíkt.
Ekki einhliða innanríkismál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.1.2010 | 18:56
Fyrir hvern er Stöð 2 að vinna?
Það var ömurlegt að fylgjast með fréttaflutningi Stöðvar 2 um formann Sjálfstæðisflokksins núna áðan. Hvað ætli þessari fréttastofu gangi til að fjalla með þessum hætti um Bjarna Benediktsson? Það að segja að hann sé sífellt að skipta um skoðun varðandi Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslur er í besta falli rangt en í versta falli er um ófrægingarherferð að ræða af hálfu Stöðvar 2 sem við skulum ekki gleyma hver ræður yfir, ennþá a.m.k.
Það er líka með ólíkindum að fylgjast með því hvernig Þorsteinn Pálsson kýs að taka afstöðu gegn þjóðinni í grein um afgreiðslu forseta Íslands á Icesave lögunum í Fréttablaðinu. Þar var um nauðvörn að ræða á allra síðustu stundu áður en algerar drápsklifjar voru lagðar á almenning í landinu og sjálfstæði þjóðarinnar í raun stefnt í voða. Forsetinn er maður af meiri að standa með þjóðinni í þessu máli!
Enn og aftur þá verður þjóðin öll að fara að átta sig og hafa vit á því að standa saman um sína hagsmuni og líka kominn tími til þess hjá fjölmiðlum sem vilja láta taka sig alvarlega að gæta hlutleysis í sínum málflutningi eða a.m.k. að standa með hagsmunum þjóðarinnar. Stöð 2 og það slekti sem að henni stendur hefur þegar valdið þjóðinni nægum skaða!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2010 | 16:03
Loksins örlar á birtu við enda ganganna!
Það hefur verið ömurlegt að horfa upp á það hvernig núverandi ríkisstjórn og forveri hennar hafa ekki staðið með málstað þjóðarinnar í Icesave málinu. Þetta kemur kannski ekki svo mikið á óvart í tilviki Samfylkingarinnar sem virðist vilja fórna öllu til að koma okkur inn í Evrópusambandið. Það að Vinstri grænir skuli taka þátt í þeim leik er hinsvegar alveg með ólíkindum.
Vinstri grænir eru upp til hópa heiðarlegt fólk sem vill vel. Ég er ekki sammála þeim í mörgum málum en ég treysti þeim þó flokka best af stóru flokkunum til að passa að hrunið verði gert upp með sómasamlegum hætti og að ekki verði málum sópað undir teppið. Varla geta ráðherrastólarnir verið svo óskaplega þægilegir að þetta góða fólk láti það glepja sig!
Ég hef ekki verið aðdáandi núverandi forseta en álit mitt á honum hefur þó aukist verulega við það að hann neitaði að staðfesta nýjasta Icesave óskapnaðinn. Hann hefur líka staðið sig mjög vel við að verja málstað Íslands undanfarna daga í viðtölum t.d. við BBC og við norska Aftenposten. Fyrir þetta ber að þakka!
Mig langar líka að hrósa þingmönnum Hreyfingarinnar fyrir sitt framlag. Þau hafa öll staðið sig mjög vel við að halda uppi málstað þjóðarinnar í Icesave málinu en sérstaklega vil ég nefna grein Birgittu Jónsdóttur á erlendum vefmiðli. Birgitta er gegnheil og góð manneskja og stendur með þjóðinni.
Loksins er málstaður okkar að komast í gegn erlendis og er vonandi að það leiði eitthvað gott af sér og að núverandi ríkisstjórn taki sig saman í andlitinu og fari að standa með þjóðinni en ekki Bretum og Hollendingum og fjármálaveldinu í heiminum.
Nú verða allir þingmenn að standa saman að því að koma okkur í gegnum þetta Icesave mál og klára það þannig að við verði unað. Til þess þarf kjark og þor en ekki að láta misvitrar yfirlýsingar fá hinum og þessum stjórna sér. Kannski ber okkur ekki að borga neitt nema það sem þrotabú einkafyrirtækisins Landsbankans getur staðið undir og væri það auðvitað réttasta niðurstaðan!
BBC ræðir við Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2009 | 22:32
Farið hefur fé betra!
Frétt af hvarfi McDonalds frá landinu vekur athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2009 | 17:31
Afhending andmæla fjölda fólks vegna Bitruvirkjunar
Um klukkan 14 í dag afhenti Björn Pálsson fráfarandi héraðsskjalavörður Árnesinga andmæli fjölda fólks gegn Bitruvirkjun. Björn hefur af eljusemi og framsýni barist gegn þessum áformum um virkjun við Ölkelduháls og í Grændal um árabil.
Undanfarið hefur Björn skipulagt söfnun andmæla gegn virkjuninni í samvinnu við fleira gott fólk. Söfnunin gekk vel og afhenti Björn andmæli yfir 1000 einstaklinga sem bætast í þann fjölda annarra sem mótmæla þessari skelfilegu þróun.
Í meðfylgjandi skjali er að finna ræðu sem Björn flutti á bæjarskrifstofu Sveitarfélagsins Ölfuss við afhendingu andmælanna, holl og góð lesning fyrir alla virkjunarsinna.
Í öðru skjali sem hér fylgir með er að finna greinargóða samantekt og andmæli sem Ingibjörg Elsa Björnsdóttir umhverfisefnafræðingur og Björn Pálsson unnu og skiluðu einnig inn vegna Bitruvirkjunar.
Þá vil ég benda á stórmerka bloggsíðu Láru Hönnu Einarsdóttur sem hefur barist gegn Bitruvirkjun um árabil af mikilli elju og fórnfýsi.
Öllum þessum aðilum, þ.e. Birni, Ingibjörgu og Láru Hönnu ásamt "fótgönguliðinu" hans Björns vil ég þakka þeirra framlag í þágu umhverfisverndar og fólksins í Hveragerði. Um leið vil ég minna á að baráttunni er ekki lokið fyrr en svæðið í kringum Ölkelduháls og Bitru hefur verið friðað til allrar framtíðar fyrir hverskyns virkjana- eða iðnaðarhugmyndum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 20:51
Bæjarstjórn Hveragerðis mótmælir virkjunaráformum við Bitru
Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 30. september s.l. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða vegna auglýsingar Sveitarfélagsins Ölfuss á ýmsum skipulagsbreytingum og þar á meðal um Bitruvirkjun:
"Bæjarstjórn tekur undir álit skipulags- og bygginganefndar með eftirfarandi bókun:
Bæjarstjórn mótmælir harðlega tillögum um iðnaðarsvæði við Bitru þar sem hún telur að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu muni hafa veruleg skaðleg áhrif bæði á umhverfi og samfélag einkum í Hveragerði og nágrenni. Bæjarstjórn vísar í þessu sambandi í umsagnir sínar um sama mál frá 2007 og 2008, þar sem hún telur að fyrirhugaðar framkvæmdir muni hafa skaðleg áhrif á möguleika Hveragerðis og nágrennis sem íbúða-, heilsu- og ferðamannasvæðis.
Í útsendum gögnum er ekki minnst einu orði á hugsanleg alvarleg áhrif af losun brennisteinsvetnis og annarra eiturefna frá Bitruvirkjun á líf og heilsu íbúa í Hveragerði. Bæjarstjórn mótmælir því harðlega að íbúar Hveragerðis og næsta nágrennis verði notaðir sem tilraunadýr, þegar horft er til þeirra alvarlegu áhrifa sem brennisteinsvetni, í því magni sem hér um ræðir, getur haft á heilsu fólks skv. því sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur þegar bent á í skýrslu stofnunarinnar (Sjá skýrslu WHO: Hydrogen Sulfide: Human Health Aspects, Genf, 2003). Sönnunarbyrðin og hin siðferðislega ábyrgð liggur hér alfarið hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélaginu Ölfusi sem ber ábyrgð á skipulagsmálum svæðisins.
Bæjarstjórn lýsir sérstökum áhyggjum af því að Reykjadalur og nágrenni verði á löngum tímabilum hugsanlega óhæfur til útivistar vegna mengunar af völdum brennisteinsvetnis. Mikil hætta er á að ferðaþjónusta skaðist af völdum fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda með því að það bakland sem hún byggir á verði ónothæft með einhverjum hætti.
Í Hveragerði eru reknar mikilvægar stofnanir á sviði öldrunar og heilsuverndar þ.e. Dvalarheimilið Ás og Heilsustofnun NLFÍ. Mengun af völdum eiturefna eða jafnvel minnsti grunur um slíka mengun yrði þessum stofnunum til óbætanlegs tjóns og myndi skaða alla framtíðarmöguleika um uppbyggingu heilsu- og ferðamannaþjónustu i bæjarfélaginu en slík uppbygging hefur verið yfirlýst stefna bæjaryfirvalda til margra ára.
Blásandi borholur við Hellisheiðarvirkjun og Hverahlíð valda nú þegar óþægindum hjá þeim sem aka þjóðveginn yfir Hellisheiði. Ekki hefur enn verið settur upp virkur hreinsibúnaður fyrir brennisteinsvetni eða aðra eiturefnamengun á Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun en slíkt er algjör forsenda þess að farið sé í frekari jarðhitavirkjanir á svæðinu.
Bæjarstjórn mótmælir tillögum um afléttingu vatnsverndar í kringum Bitru og Hverahlíð. Bæjarstjórn telur að ekki sé sýnt fram á það með óyggjandi hætti að vatnsból muni ekki mengast af völdum virkjanaframkvæmda á svæðinu. Minnsti efi um þetta atriði er með öllu óásættanlegur.
Bæjarstjórn hvetur Alþingi eindregið til að vinna að friðun Bitrusvæðisins og næsta nágrenni þess fyrir hvers kyns virkjanahugmyndum eða öðrum iðnaðarframkvæmdum og hlúa þannig að því sem útivistarsvæðis. Jafnframt eru orkufyrirtækin hvött til þess að kynna sér betur sjónarmið Hvergerðinga og þær rannsóknir sem til eru um áhrif brennisteinsvetnismengunar á mannslíkamann.
Ísland hefur alla burði til að vinna að sjálfbærri þróun og að taka þannig forystu á heimsvísu í þeim efnum. Virkjanir orku í landinu eru almennt þess eðlis að náðst hafa sæmilegar sættir um þær sem sjálfbærar. Aldrei getur náðst sátt um það að ráðast í svo umdeilda framkvæmd sem virkjun Bitru er. Virkjunin mundi einungis skaða góða ímynd orkugeirans bæði innanlands sem utan."
Það er í raun með eindæmum að Hvergerðingar skuli ítrekað þurfa að berjast fyrir tilveru sinni og sínu umhverfi gegn misvitrum áætlunum nágrannasveitarfélagsins sem ógnað geta grundvallar lífsskilyrðum bæjarbúa.
Það er sömuleiðis stórfurðulegt að Sveitarfélagið Ölfus skuli í raun geta gefið Skipulagsstofnun langt nef og ekki sætt sig við niðurstöður stofnunarinnar og heldur ekki svarað ábendingum og aðfinnslum stofnunarinnar. Óneitanlega minnir þessi framkoma og yfirgangur sveitarfélagsins á framgöngu bankanna og útrásarvíkinganna gagnvart yfirvöldum og lögum og reglum á síðustu árum.
Þótt hagsmunir og mannréttindi Hvergerðinga ættu að sjálfsögðu að duga til að ekki sé haldið áfram með áform um Bitruvirkjun eru það langt því frá einu rökin gegn þessari framkvæmd. Umhverfislega væri það mikið og óbætanlegt tjón að byggja virkjun á umræddu svæði og fjöldi fólks mótmælir skipulagsbreytingunni einnig á þeim forsendum.
Nánast sömu áformum um Bitruvirkjun var hrundið á árinu 2008. Núna ákveður sveitarfélagið að fara aftur af stað með málið á þeirri forsendu einni, að því er virðist, að ástandið í þjóðfélaginu sé það slæmt að verjandi sé að fara í þessa breytingu!
Það er ólíðandi að ítrekað þurfi fólk að standa í þessari baráttu fyrir grundvallar mannréttindum og ríkum umhverfishagsmunum, baráttu sem ljóst er að mun aldrei ljúka nema með því að alfarið verði hætt við Bitruvirkjun og önnur virkjanaáform á svæðinu í kringum Ölkelduháls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2009 | 20:35
LOKSINS eitthvað gert!
Standist þessar fréttir um lækkun á greiðslubyrði lána og afskriftir í lok lánstíma tek ég það aftur sem ég sagði fyrr í dag að þessi ríkisstjórn sé handónýt. Ef þetta stenst og gengur eftir á hún sér viðreisnar von.
Því ber líka að fagna að utanríkisráðherra lét Breta og Hollendinga heyra það í ræðu á Allsherjarþingi SÞ.
Loksins eru menn að vakna af þeim Þyrnirósarsvefni sem hér hefur ríkt. Kannski þjóðin fari þá að eygja einhverja von um að komast í gegnum þessar hremmingar.
Greiðslubyrði lána færð aftur til maí 2008 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.9.2009 | 18:00
Ekki bara vanhæf heldur HANDÓNÝT ríkisstjórn!
Sú ríkisstjórn sem nú er við völd á Íslandi og hefur í raun verið síðan í byrjun ársins er að valda þjóðinni óbætanlegum skaða með aðgerðarleysi, kjarkleysi og almennu getuleysi.
Þetta má rökstyðja með fjölmörgum atriðum en hér koma fáein:
- Samningurinn um ICESAVE var illa gerður og í raun óþarfur og ef af verður mun hann kosta þjóðina ómældar hörmungar.
- Ekkert marktækt eða raunhæft hefur verið gert fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu.
- Þessu fólki dettur ekkert í hug til að bæta hag þjóðarinnar en leggur áherslu á hærri skatta og gjöld á gjaldþrota og illa stödd heimili og fyrirtæki. Þetta er stórhættuleg stefna sem mun skrúfa okkur niður í eymd og volæði til margra ára ef ekki verður snúið af þessari braut án tafar.
- Ríkisstjórnin og ekki síst forystumaður hennar hefur enga hæfileika til að vera í leiðtogahlutverki. Hún hvorki talar kjark í þjóðina né talar við innlenda og erlenda fjölmiðla til að tala máli þjóðarinnar.
- Ríkisstjórnin getur ekki komið neinum framfaramálum áfram vegna þess að hún kemur sér ekki saman um leiðirnar. Glænýtt dæmi um þetta er getuleysið varðandi samninga við Alcoa vegna Bakka.
- Það eru aðilar tilbúnir með peninga og hafa vilja til að fara mjög fljótt og hratt í breikkun Hvalfjarðarganganna en nei það strandar á þessari handónýtu ríkisstjórn.
- Ekki ætti að vera neitt því til fyrirstöðu að fara í breikkun Suðurlandsvegar núna alveg á næstu vikum eða í hæsta lagi mánuðum ef ríkisstjórnin gæti yfirleitt eitthvað.
Svona væri hægt að telja fjölmörg önnur atriði. Ef það var þörf fyrir búsáhaldabyltingu í janúar þá er þörf fyrir byltingu hins almenna borgara þessa lands núna. Við þurfum ríkisstjórn sem getur, þorir og gerir sem allra fyrst og áður en þessi stjórn setur okkur endanlega aftur í hafsauga í lífskjörum og áliti umheimsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.9.2009 | 21:33
Vönduð vinnubrögð?
Eitt af því sem a.m.k. flest sveitarfélög kappkosta eru vönduð vinnubrögð við skipulagsvinnu þar sem farið er að lögum og reglum þar um og unnið er með Skipulagsstofnun að því að hafa hlutina í lagi. Ennfremur er reynt að sætta sjónarmið og gæta allra mikilvægra hagsmuna við gerð skipulagsins og breytingar á því.
Samráð er haft við Skipulagsstofnun með lögformlegum hætti og þess á milli líka með óformlegum hætti til að fá góð ráð til að gæta þess að allt sé rétt gert og að ferlið sé gagnsætt og vandað. Hjá Skipulagsstofnun starfar mjög hæft fólk sem fer vel yfir skipulagsvinnuna og gefur umsagnir sem skipulagsyfirvöld vinna eftir og lagfæra það sem betur má fara.
Mjög athyglisvert er að kynna sér umsagnir Skipulagsstofnunar vegna nýlega auglýstrar breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem Bitruvirkjun er aftur tekin á dagskrá í óþökk mjög margra hagsmunaaðila.
Öll bréfin ásamt öðrum gögnum um breytinguna er að finna hér.
Eftirfarandi eru tilvitnanir úr síðasta bréfinu frá Skipulagsstofnun áður en breytingin var auglýst, þ.e. úr bréfi 3:
Skipulagsstofnun er ósammála því að sveitarfélagið hafi tekið tillit til athugasemda með því að fresta skipulagi um tíma og leggja tillöguna óbreytta fram að nýju.
Annað dæmi úr niðurlagi sama bréfs: Sveitarfélagið hefur ekki svarað athugasemdum sem fram komu vegna fyrri auglýsingar á breytingu á Aðalskipulagi Ölfuss 2002-2014 vegna Bitruvirkjunar.
Enn eitt dæmi úr sama bréfi: Skipulagsstofnun telur að enn sé mótsögn í tillögunni þar sem á einum stað í umhverfisskýrslu er fullyrt að um og yfir 180 MW af orku sé sjálfbær nýting en á öðrum stað segir að áhrif framkvæmdarinnar á jarðhitageyminn séu óljós.Í lok þessa síðasta bréfs segir Skipulagsstofnun síðan:
"Skipulagsstofnun telur að Sveitarfélagið Ölfus hafi ekki svarað athugasemdum stofnunarinnar frá 30. mars 2009 að öllu leyti, sbr. ofangreindar athugasemdir. Skipulagsstofnun telur hinsvegar tímabært að tillagan fái almenna umræðu og gerir því ekki athugasemd við að tillagan verði auglýst skv. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga."
Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort hér er virkilega um vönduð vinnubrögð að ræða af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss.
Hin almenna umræða er semsagt hafin og vil ég hvetja alla sem áhuga hafa og hagsmuna hafa að gæta til að kynna sér þessi gögn og jafnframt að mótmæla harðlega því stórslysi sem yrði ef Bitruvirkjun yrði samþykkt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)