Færsluflokkur: Bloggar

Hvers eiga Hvergerðingar og nágrannar að gjalda gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur?

Hitaveita Hveragerðis var tekin yfir af OR fyrir smánarlegt kaupverð árið 2003. Það er ekki mikið fullyrt að segja að þarna var um mjög vafasaman gjörning að ræða sem Hvergerðingar munu líða fyrir um ókomna framtíð. Raunar var þessi gjörningur þess eðlis að hann ætti að rannsaka og kæra ekki síður en svo marga aðra gjörninga misviturra manna á seinni árum.

Hitaveitugjöld í Hveragerði hafa stórhækkað frá árinu 2008 og Hvergerðingar þannig látnir súpa seiðið af glæfralegri skuldasöfnun og slæmum rekstri OR sem bæjarfélagið á ekkert í. Skuldir OR eru um 250 milljarðar og svo miklar að taka verður þær út fyrir sviga þegar fjallað er um allar skuldir sveitarfélaga á Íslandi. OR hefur tekist að spila svo rassinn úr buxunum í fjármálum og rekstri að ekki tekur nokkru tali.

OR hefur rembst einsog rjúpan við staurinn að fá leyfi til að virkja á Bitru þrátt fyrir að sýnt hefur verið fram á að það muni rýra mjög loftgæði í Hveragerði og hafa ýmis önnur neikvæð áhrif fyrir íbúa Hveragerðis og nágrennis. Er þó þegar meira en nóg komið af mengun frá núverandi virkjunum og hvað þá heldur þeim sem þegar hefur verið veitt vilyrði fyrir.

Hveragerðis og áhrifa af virkjunum þar er vart getið í umhverfismati fyrir virkjanir á Hellisheiði. Hver skyldi ástæðan vera fyrir því? Eru áhrifin kannski svo mikil að aðilar treysta sér ekki til að setja þau fram?

Núna er svo komið að það skelfur hér allt og nötrar í orðsins fyllstu merkingu af völdum niðurdælingar á vatni frá Hellisheiðarvirkjun einni hvað þá þegar aðrar hafa bæst við. Með þessu er OR að grípa inn í náttúruna með ófyrirséðum hætti og valda íbúum Hveragerðis og nágrennis verulegum óþægindum og tjóni. Við erum að upplifa jarðskjálfta af völdum OR allt að 4 á Richter skala og gætu orðið stærri. Er OR borgunaraðili fyrir þessu tjóni sem hún er að valda íbúum, ég segi nei!

Ég endurtek: Hvers eiga Hvergerðingar og nágrannar að gjalda gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur?


Hugmyndir um vegtolla eru algert brjálæði!

Þær hugmyndir sem nú heyrast um vegatolla á vegum á suðvesturhorni landsins eru algert brjálæði og mikilvægt að allir réttsýnir menn berjist af fullri hörku gegn slíkum hugmyndum.

Það skattheimtubrjálæði sem núverandi ríkisstjórn fer fram með er með öllu ólíðandi og nú virðist það vera að ná nýjum hæðum sem gerir það að verkum að nánast ekkert kemur á óvart sem úr þessum herbúðum kemur. Herbúðir er réttnefni í þessu samhengi því að núverandi ríkisstjórn stundar hernað gegn almenningi og lífskjörum í landinu.

Að mönnum skuli detta það í hug að rukka e.t.v. allt upp í 30 þúsund krónur á mánuði af þeim sem t.d. nota Suðurlandsveginn daglega væri slík ofurskattheimta og mismunun að við slíkt verður aldrei unað.

Sjálfur ek ég þessa leið daglega til vinnu í Reykjavík og hef gætt þess að nota til þess aksturs sparneytinn og þar með tiltölulega umhverfisvænan bíl og hef lagt metnað í að nota t.d. ekki negld vetrardekk. Ef settur yrði á vegtollur væri grundvellinum undir þessum akstri til og frá vinnu kippt í burtu og nánast sjálfhætt.

Með því að setja á staðbundna vegatolla á SV horninu væri landsmönnum mismunað með algerlega óþolandi hætti. Ekki má heldur gleyma því að það væri mjög skaðlegt fyrir bæjarfélög t.d. á vestanverðu Suðurlandi ef svona hugmyndir ná fram að ganga og þau munu aldrei sætta sig við það fyrir hönd sinna bæjarbúa.


mbl.is Mótmælir vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring!

Í hvaða veruleika ætli þessi maður lifi? Allavega ekki þeim sama og megin þorri þjóðarinnar og sennilega stjórnarandstaðan líka með Lilju Mósesdóttur í broddi fylkingar!

Þetta snýst ekki bara um gjaldþrot heimila heldur líka um réttlæti, það er ekkert réttlæti í því að skuldir almennings hækki langt umfram kaupmátt á fáeinum mánuðum jafnvel þótt hluti fólks geti með herkjum staðið undir því. Nú hefur svokölluð millistétt í samfélaginu, þ.e. burðarásinn sem stendur undir skatttekjunum, fengið meira en nóg af aðgerðarleysinu og þá er stjórninni ekki sætt lengi í viðbót.

Núverandi ríkisstjórn á að fara frá og það strax, hún hefur alltof lengi fengið frið til að gera ekki neitt að viti og valdið með því stórskaða fyrir íslenskt samfélag!


mbl.is Þverpólitísk samstaða um aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegt!

Það er í besta falli ömurlegt að Björgvin G. Sigurðsson skuli taka sæti á Alþingi aftur. Allt það fólk sem var í "hrunstjórninni" og er eftir á Alþingi á að fara þaðan og þótt miklu fyrr hefði verið!


mbl.is Björgvin kemur aftur inn á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli við gerræðislegum reglum

Eftirfarandi mótmæli sendi undirritaður á sogv@vjp.is í gær: 

Ég vil hér með koma á framfæri mótmælum við ýmis ákvæði verndaráætlunar Vatnajökulþjóðgarðs, 24. júní 2010.2. laga um Vatnajökulsþjóðgarðs: „Markmiðið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skal almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist og veita fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins.
Verndarstig einstakra svæða eða landslagsheilda innan Vatnajökulsþjóðgarðs skal taka mið af verndarmarkmiðum þjóðgarðsins og annarri landnýtingu á viðkomandi svæði í samræmi við alþjóðlegar viðmiðanir um þjóðgarða og friðlýst svæði.“

Þessa grein tel ég góða og gilda og af hinu góða.  Ýmis ákvæði verndaráætlunarinnar tel ég hins vegar vera í algerri andstæðu við þessi lög og vera sprottin af þröngri sýn á ferðamennsku og einkaleyfahyggju.  Það er stórhættuleg stefna.

Ég mótmæli harðlega að eingöngu göngufólki sé heimilt að tjalda utan tjaldsvæða.  Ég hef ferðast í 40 ár á fjöllum bæði gangandi og á bíl og fullyrði að ég hef sem ökumaður ekki valdið meiri skemmdum á landslagi og gróðri en göngumaður sem tjaldar og eldar sér mat á prímus.   Ég mótmæli því harðlega að ég megi ekki tjalda eða opna tjaldvagninn minn að kvöldi nema á afmörkuðum tjaldsvæðum. Ég má ekki tjalda við hlið skálans, göngumaður má það hins vegar.  Komi ég að yfirfullum skála að kvöldi má ég ekki tjalda!  Hvað á ég þá að gera við fjölskyldu mína?  Þetta er fyrir neðan allar hellur. 

Einnig eru takmarkanir á ferðafrelsi um ýmsar leiðir tilgreindar.  Gamlir slóðar liggja þar um og allt í einu á að leyfa þeim einum að fara um slóðana sem hafa hagsmuni af því í atvinnuskyni þ.e. bændum og ferðaþjónustumönnum! Eða þeim takmarkaða hópi sem er fullfrískir göngumenn og geta borið byrðar sínar á bakinu.  Hvað um allan almenning? Á að einkavæða landið og brjóta þannig 2. grein laganna?  Ég mótmæli þessum ákvæðum verndaráætlunar harðlega.

Ég mótmæli harðlega að þjóðgarðsverðir megi loka svæðum án rökstuðnings, það býður upp á að geðþóttaákvarðanir ráði ríkjum og það er ekki fagleg nálgun.

Ég mótmæli harðlega að bönnuð verði akandi umferð um ýmsa þá slóða sem hafa verið í notkun í tugi ára og eru til á kortum.  Ég mótmæli að einhverjir útvaldir setjist niður og striki út slóða og velji og hafni hvað má fara og hvað ekki. Þekking þeirra á landinu er takmörkuð og sjónarmið ferðafólks sem notar aðra ferðamáta en eingöngu fætur sína, eða hefur atvinnu af ferðaþjónustu, þarf að koma að slíkum gjörningi.  Annað er ófært. Landið er okkar allra. 

Ég mótmæli harðlega öllum tilburðum í þá átt að einkavæða aðgang að íslenskri náttúru, einnig innan Vatnajökulþjóðgarðs.

Ég mótmæli harðlega að einhverjum sumarstarfsmanni einhverrar ferðaþjónustu verði treyst til að aka um landið en ekki mér, bara af því að hann er í vinnu hjá ferðaþjónustufyrirtæki.

Ég mótmæli harðlega að einhver fái að aka um landið bara af því að hann hefur keypt hreindýraveiðileyfi.

Ég mótmæli harðlega að einhver fái að aka um landið bara af því að hann er bóndi niðri í byggð.

Ég mótmæli harðlega að mér sé meinuð ferðamennska um ýmsa fallega staði landsins, sem ökufærir slóðar liggja til, bara af því að ég er fótafúin, með lítil börn, eða ekki göngufær af öðrum ástæðum.

Ég  hef alltaf stutt og styð enn bann við akstri utan vega nema á frosinni jörð og snjó, og allar aðgerðir sem sporna gegn skemmdum á viðkvæmri náttúru Íslands, en þetta er EKKI RÉTTA LEIÐIN.  –  Það hefur náðst mikill árangur síðustu áratugi vegna fræðsluáróðurs - það þekkja þeir sem ferðast hafa í langan tíma.

Það er óþolandi forsjárhyggja að það eigi að flokka fólk þannig að þeir sem ferðast með ökutækjum séu eitthvað annars flokks fólk og að því sé meinað að ferðast um tiltekin svæði með  vægast sagt mjög hæpnum röksemdum um náttúruspjöll. Þeir sem ekki geta farið um landið okkar án þess að valda náttúruspjöllum eiga að sæta refsingu en bestur árangur næst með jákvæðum áróðri og góðu uppbyggilegu eftirliti. Slíku starfi er aldrei lokið í landi einsog okkar og þannig ætti Vatnajökulsþjóðgarður að starfa.

Eitt dæmi um þann fáránleika sem birst getur í þessu samhengi: Það hefur stundum heyrst frá göngufólki að það sé óþolandi þegar t.d. gengið er á Hvannadalshnjúk ef það koma jeppar eða vélsleðar akandi að Hnjúknum eða einhversstaðar nærri. Ég gekk á Hvannadalshnjúk fyrir réttum tveimur árum og þá flaug bæði þyrla og flugvél yfir í lítilli hæð með tilheyrandi drunum sem rufu þá miklu kyrrð sem þarna var, hefði kannski átt að banna flugumferð þarna líka?

Ég hef ekið talsvert mikið bæði umhverfis og um Vatnajökul og fullyrði að fátt er meiri upplifun og fáir eiga þess kost að fara um þetta svæði nema þá akandi þar sem það er ekki öllum gefið að fara í meiriháttar gönguferðir um jökla.

Í umræddri verndaráætlun, sem að ýmsu leiti er áreiðanlega til bóta einsog fram kom hér í upphafi, birtist því miður líka fádæma forsjárhyggja og öfgar sem ekki eiga að líðast hér á landi fremur en annarsstaðar.

Með bestu kveðjum,

Eyþór H. Ólafsson

Kambahrauni 31,

810 Hveragerði

Kt. 290559-2359


Sunnlendingar standa með þjóðinni

Nú hefur þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave farið fram og þá kemur í ljós að kjörsóknin var mest í Suðurkjördæmi, þ.e. á Suðurlandi og á Reykjanesi. Jafnframt kemur í ljós að hið mikilvæga "nei" var hvað sterkast frá þessu kjördæmi þótt það væri vissulega sterkt líka á landsvísu. Þetta sýnir að íbúar Suðurkjördæmis skilja hvað kemur þjóðinni best í þessu máli.

Í Suðurkjördæmi byggir fólk hvað mest á grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, þ.e. sjávarútvegi og landbúnaði auk þess sem þar eru stærstu virkjanasvæði landsins og mestu vonarneistarnir um framtíðar atvinnuuppbyggingu, hvort sem er í ferðaþjónustu eða orkufrekum iðnaði. Íbúar kjördæmisins vita að Íslendingar hafa á miklu að byggja og hafa trú á framtíð þjóðarinnar og vilja ekki að hún sé kúguð af erlendum nýlenduveldum.


mbl.is Kjörsókn 66% í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur málflutningur!

Það var í besta falli furðulegt að hlusta á málflutning þeirra Jóhanns Haukssonar og Hallgríms Helgasonar í Silfri Egils í dag.

Hallgrímur er fullur af heift út í Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans í fortíð og nútíð og það er ekkert nýtt. Að heyra síðan hvernig Ragnar Reykás birtist í hans málflutningi er það sem veldur mér furðu. Það er útaf fyrir sig gott ef hann er, ásamt fleirum, að átta sig á því að e.t.v. hafi ríkisstjórnin ekki verið á réttri leið með Icesave samningana. Hann viðurkenndi jafnvel að forsetinn hafi haft rétt fyrir sér með því að hafna lögunum þótt hann hafi síðan verið opinberlega úthrópaður fyrir af fulltrúum stjórnarflokkanna með hætti sem ekki þekkist í sögu íslenska lýðveldisins.

Jóhann Hauksson var uppfullur af því að við ættum skilyrðislaust að borga Icesave og mættum allsekki valda okkur frekari álitshnekki með því að hafna því. Hann fór síðan háðulegum orðum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem voru honum ekki til álitsauka. Semsagt enn ein rolan sem veit í raun lítið hvað hann er að tala um og stýrist af ómerkilegri pólitík en ekki málefnalegu mati á stöðunni.

Síðan var m.a. viðtal við hollenskan prófessor, Sweder Van Vijnbergen, sem komst alveg að kjarna málsins. Ábyrgðin er allsekki öll okkar Íslendinga og okkar eftirlits, heldur líka og ekki síður Seðlabanka Hollands og fjármálaeftirlits Bretlands. Þessar raddir eru sem betur fer að ná yfirhöndinni erlendis að því er virðist þótt þeir aðilar sem tóku rangar ákvarðanir í hollenskri og breskri stjórnsýslu hafi enn ekki áttað sig og vilji það e.t.v. ekki þar sem þeir halda að þeir myndu líta illa út við það.

Lykilatriðin í Icesave deilunni eru eftirfarandi:

  1. Það er Breta og Hollendinga að koma og "rukka", þ.e. í raun að leita eftir samningum, ef þeir telja sig eiga eitthvað inni. Þeir tóku ákvörðun um að greiða út inneignir í Icesave án þess að hafa nokkuð fullnægjandi í hendi um að Íslendingar ætluðu eða yfirleitt ættu að greiða þann kostnað.
  2. Landsbankinn var einkafyrirtæki sem varð gjaldþrota. Þegar slíkt gerist er það þrotabúið sem er notað til að standa undir kröfum í búið. Það á líka að gilda um Icesave en þar sem um innlánsbanka var að ræða þá kemur einnig til innistæðutryggingasjóður og það sem í honum var.
  3. Vegna eðlis þess sem gerðist og ábyrgðar íslenska fjármálaeftirlitsins má vel vera að rétt sé að Íslendingar sem þjóð taki þátt í kostnaði við mistök Breta og Hollendinga - þessi þáttur er pólitísk ákvörðun. Þar með er ekki sagt að við eigum að opna buddu íslenskra skattgreiðenda upp á gátt og bjóðast til að borga bara allan brúsann með háum vöxtum!
  4. Það að íslensk stjórnvöld undirrituðu eitthvert minnisblað um greiðslu Icesave "skuldarinnar" þegar þau voru alveg upp við vegg rétt eftir hrunið, með hrunið bankakerfi í fanginu, með hryðjuverkalög Breta á bakinu o.fl. er engan veginn grundvöllur að samkomulagi um að við borgum allan brúsann.
Því miður hefur verið afar illa haldið á hagsmunum Íslendinga alveg frá hruninu, að ekki sé talað um aðdragandann. Nú er mál að linni og að allir stjórnmálaflokkarnir leggist á eitt að laga klúðrið eftir sig og standi a.m.k. saman um þetta mál hvað sem öðru líður. Þetta er mórölsk krafa þjóðarinnar svo að þessir sömu flokkar öðlist hugsanlega eitthvað trúnaðartraust!

Gott mál!

Það ber að fagna því að stjórn og stjórnarandstaða séu að ná saman um þetta leiðindamál. Það er ekki hægt að kenna neinum einum um hvernig komið er. Núverandi ríkisstjórn fékk ákveðið vegarnesti frá hrunstjórninni sem líka var upp við vegg og var engan veginn öfundsverð. Þetta er sennilega eitt erfiðasta einstaka mál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir að fátöldu því uppgjöri sem fara þarf fram eftir hrunið.

Gangi ykkur öllum vel og ekki gefast upp!


mbl.is Segja um góðan fund að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins er Steingrímur að átta sig!

Loksins örlar á því að Steingrímur Sigfússon sjái upp úr þeim táradal sem ríkisstjórnin hefur verið í í þessu Icesave máli og sé að átta sig á því að við eigum að fagna því að fá stuðning við okkar málstað.

 Ekki mun ég taka þátt í því að dæma ríkisstjórnina eða stjórnarmeirihlutann vegna þess sem unnið hefur verið undanfarna mánuði. Þetta er ekki auðvelt hlutverk en núna þurfum við að snúa bökum saman, hætta öllum hráskinnaleik og koma okkur í gegnum þetta.


mbl.is Ríkisstjórnin í vandræðalegri stöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hvaða liði er Björn Valur?

Því í ósköpunum kýs Íslendingurinn Björn Valur Gíslason að gera lítið úr málflutningi Alain Lipietz sem hin virta Eva Joly, sem við eigum mikið að þakka, kemur með fram til að styðja okkar málstað?

Björn Valur vitnar í Wilkipedia sem er nú kannski ekki mjög trúverðugt og reynir að gefa í skyn að þessi Lipietz hafi nú bara unnið hjá frönsku vegagerðinni en ekki komið nærri því að gera umræddar tilskipanir. Það kom skýrt fram að hann átti ekki þátt í þeirri fyrri, þ.e. frá 1994 en hann var formaður nefndarinnar sem samdi aðra tilskipun og þekkir þessi mál því afar vel. Hér má finna upplýsingar um það.

Ég ætla mér ekki að halda því fram að ég hafi vit á þessu í smáatriðum en ég kann sæmilega á google og þurfti ekki langa stund til að finna framangreint. Það sem ég velti fyrst og fremst fyrir mér í þessu er hvað Birni og mörgum öðrum í stjórnarmeirihlutanum gengur eiginlega til að gera lítið úr málflutningi sem er þó loksins okkur Íslendingum til framdráttar. Af hverju leggst þetta fólk ekki á árarnar með okkur hinum og leggur pólitískan hráskinnaleik til hliðar?


mbl.is Segir margt athugavert við málflutning Lipietz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband