Suðurlandsveginn af stað núna strax!

Þær raddir heyrast þessa dagana að nú séu engir peningar til og að draga verði úr öllum framkvæmdum. Þetta er þveröfugt þegar Ríkið á í hlut. Ríkið ætti núna að drífa í góðum framkvæmdum sem eru bæði þarfar, mannaflsfrekar og kalla á tiltölulega lítil erlend útgjöld.

Suðurlandsvegurinn er mjög gott dæmi um einmitt svona framkvæmd sem er bæði nauðsynleg og tiltölulega mannaflsfrek en kostar tiltölulega lítinn gjaldeyri. Tækin og mannskapurinn er fyrir hendi og hægt að byrja mjög fljótt.

DRÍFUM SUÐURLANDSVEGINN AF STAÐ NÚNA STRAX.

Ekki einu sinni láta það hvarfla að ykkur ágæta ríkisstjórn að fresta því!

Sama er að segja um ýmsar viðhaldsframkvæmdir sem hafa setið á hakanum í þenslunni. Núna er rétti tíminn til að fara í slíkar framkvæmdir t.d. á vegum, byggingum í eigu hins opinbera o.fl.

Ríkisstjórn og Alþingi verða líka að skilja það að núna er ekki rétti tíminn til að draga úr eða standa ekki við framlög til sveitarfélaga. Sveitarfélögin lenda í ýmsum hremmingum og útgjöldum vegna kreppunnar og aukinnar félagslegrar aðstoðar við íbúana og Ríkinu ber að standa við bakið á þeim.

Þannig ættu framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að aukast fremur en að skerðast. Ennfremur ætti Ríkið að sjá sóma sinn í að standa við ýmis lög sem Alþingi hefur sett um framlög til ýmissa mála en ekki hefur verið staðið við og það varið með því að það sé ekki heimild á fjárlögum! Alltof oft kemur það upp að lög sem sett eru á Alþingi verða markleysa af þessum sökum. Eitt dæmi eru t.d. fasteignagjöld af stofnunum ýmiskonar sem Ríkið hefur ekki séð sóma sinn í að standa við eins og vera ber eða a.m.k. reynt að standa gegn því.

Ég er ekki talsmaður ríkisvæðingar og tel einstaklingana sjálfa best til þess fallna að ráðstafa sínum eignum og tekjum. Staðan er hinsvegar sú núna að Ríkið VERÐUR að koma að málum án tafar til að fá hjólin til að snúast áfram.

Það er sagt að á tímum þenslu eigi Ríkið fremur að halda að sér höndum í útgjöldum. Skuldir Ríkisins voru greiddar niður á þenslutímanum og það er vel og nú hefði átt að vera borð fyrir báru til að auka framkvæmdir á vegum opinberra aðila til að draga úr niðursveiflunni. Síðan skapast þessi slæma staða sem nú er uppi en samt sem áður ber Ríkinu skylda til að smyrja hjólin og hjálpa atvinnulífinu og sveitarfélögunum til að halda uppi atvinnu í landinu og koma okkur þannig smám saman út úr kreppunni. Það er nóg til af krónum, notum þær!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband