Ingibjörg Sólrún hamrar járnið

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og fyrirsögnin er "Ég hamra járnið". Hvaða járn hamrar Ingibjörg, jú það kemur fram í fyrirsögninni sem blaðið kýs að slá upp á forsíðunni: "Davíð skaðar orðsporið". Þetta er það járn sem Ingibjörg Sólrún og félagar hafa hamrað um árabil. Þetta hefur því miður verið nánast eina pólitíkin sem henni hefur dottið í hug að reka lengi. Ég held að Ingibjörgu og félögum væri nær að líta í eigin barm og horfast í augu við það að hún hefur með þessari framgöngu átt verulegan þátt í því að þróun eignarhalds á fjölmiðlum í landinu er orðin bókstaflega stórhættuleg. Ennfremur hefur með þessu tekist að gera viðvaranir þær sem Davíð Oddsson hefur reynt að koma á framfæri um útþenslu bankanna nánast að engu.

Hafi maður þolinmæði og nennu til að lesa umrætt viðtal þá kemur í ljós að fyrirsögnin vísar í raun til þess að járnið sem Ingibjörg Sólrún vill meina að hún sé að hamra sé innganga í Evrópusambandið. Heldur hún virkilega að það sé ráðlegt að hrekjast þangað inn í þeirri stöðu sem við erum nú?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki forðast umræðu um Evrópusambandsaðild. Þvert á móti hefur flokkurinn ítrekað tekið mikla umræðu um það mál og niðurstaðan ávallt verið sú sama, þ.e. að hagsmunirnir séu meiri að vera utan sambandsins en innan. Það er ljóst að við höfum notið mjög stórs hluta af þeim kostum sem væru við aðild með samningnum um evrópska efnahagssvæðið en um leið höfum við verið laus við ókostina sem margsinnis er búið að fara yfir.

Auðvitað eigum við ávallt að vera að endurmeta kosti og galla þeirra valkosta sem við höfum og ekki síst núna en það þurfum við að gera af yfirvegun og ekki með fyrirfram gefna niðurstöðu eins og Samfylkingin leggur upp með.

Það er stórundarlegt að svo virðist sem Samfylkingin hafi ekkert annað merkilegra fram að færa í þeirri stöðu sem við nú erum í en að kenna Davíð Oddssyni um alltsaman og að hann þurfi að víkja. Ég vona að fólk sjái í gegnum það hversu vitlaus þessi málflutningur er. Staða okkar í dag hefur ekkert með einstakar persónur að gera og við leysum ekkert með því að ráðast á einstaklinga með þessum hætti.

Við eigum að horfa til framtíðar en læra af fortíðinni. Við þurfum að leita eftir réttlæti, þ.e. ef einhverjir hafa brotið lög í því sem gerst hefur þá ber að draga þá til ábyrgðar eftir réttum leiðum en hefnd og reiði út í einstaka menn skilar engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband