1.11.2008 | 15:53
Ingibjörg Sólrún hamrar járnið
Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og fyrirsögnin er "Ég hamra járnið". Hvaða járn hamrar Ingibjörg, jú það kemur fram í fyrirsögninni sem blaðið kýs að slá upp á forsíðunni: "Davíð skaðar orðsporið". Þetta er það járn sem Ingibjörg Sólrún og félagar hafa hamrað um árabil. Þetta hefur því miður verið nánast eina pólitíkin sem henni hefur dottið í hug að reka lengi. Ég held að Ingibjörgu og félögum væri nær að líta í eigin barm og horfast í augu við það að hún hefur með þessari framgöngu átt verulegan þátt í því að þróun eignarhalds á fjölmiðlum í landinu er orðin bókstaflega stórhættuleg. Ennfremur hefur með þessu tekist að gera viðvaranir þær sem Davíð Oddsson hefur reynt að koma á framfæri um útþenslu bankanna nánast að engu.
Hafi maður þolinmæði og nennu til að lesa umrætt viðtal þá kemur í ljós að fyrirsögnin vísar í raun til þess að járnið sem Ingibjörg Sólrún vill meina að hún sé að hamra sé innganga í Evrópusambandið. Heldur hún virkilega að það sé ráðlegt að hrekjast þangað inn í þeirri stöðu sem við erum nú?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki forðast umræðu um Evrópusambandsaðild. Þvert á móti hefur flokkurinn ítrekað tekið mikla umræðu um það mál og niðurstaðan ávallt verið sú sama, þ.e. að hagsmunirnir séu meiri að vera utan sambandsins en innan. Það er ljóst að við höfum notið mjög stórs hluta af þeim kostum sem væru við aðild með samningnum um evrópska efnahagssvæðið en um leið höfum við verið laus við ókostina sem margsinnis er búið að fara yfir.
Auðvitað eigum við ávallt að vera að endurmeta kosti og galla þeirra valkosta sem við höfum og ekki síst núna en það þurfum við að gera af yfirvegun og ekki með fyrirfram gefna niðurstöðu eins og Samfylkingin leggur upp með.
Það er stórundarlegt að svo virðist sem Samfylkingin hafi ekkert annað merkilegra fram að færa í þeirri stöðu sem við nú erum í en að kenna Davíð Oddssyni um alltsaman og að hann þurfi að víkja. Ég vona að fólk sjái í gegnum það hversu vitlaus þessi málflutningur er. Staða okkar í dag hefur ekkert með einstakar persónur að gera og við leysum ekkert með því að ráðast á einstaklinga með þessum hætti.
Við eigum að horfa til framtíðar en læra af fortíðinni. Við þurfum að leita eftir réttlæti, þ.e. ef einhverjir hafa brotið lög í því sem gerst hefur þá ber að draga þá til ábyrgðar eftir réttum leiðum en hefnd og reiði út í einstaka menn skilar engu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2008 | 14:58
Suðurlandsveginn af stað núna strax!
Þær raddir heyrast þessa dagana að nú séu engir peningar til og að draga verði úr öllum framkvæmdum. Þetta er þveröfugt þegar Ríkið á í hlut. Ríkið ætti núna að drífa í góðum framkvæmdum sem eru bæði þarfar, mannaflsfrekar og kalla á tiltölulega lítil erlend útgjöld.
Suðurlandsvegurinn er mjög gott dæmi um einmitt svona framkvæmd sem er bæði nauðsynleg og tiltölulega mannaflsfrek en kostar tiltölulega lítinn gjaldeyri. Tækin og mannskapurinn er fyrir hendi og hægt að byrja mjög fljótt.
DRÍFUM SUÐURLANDSVEGINN AF STAÐ NÚNA STRAX.
Ekki einu sinni láta það hvarfla að ykkur ágæta ríkisstjórn að fresta því!
Sama er að segja um ýmsar viðhaldsframkvæmdir sem hafa setið á hakanum í þenslunni. Núna er rétti tíminn til að fara í slíkar framkvæmdir t.d. á vegum, byggingum í eigu hins opinbera o.fl.
Ríkisstjórn og Alþingi verða líka að skilja það að núna er ekki rétti tíminn til að draga úr eða standa ekki við framlög til sveitarfélaga. Sveitarfélögin lenda í ýmsum hremmingum og útgjöldum vegna kreppunnar og aukinnar félagslegrar aðstoðar við íbúana og Ríkinu ber að standa við bakið á þeim.
Þannig ættu framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að aukast fremur en að skerðast. Ennfremur ætti Ríkið að sjá sóma sinn í að standa við ýmis lög sem Alþingi hefur sett um framlög til ýmissa mála en ekki hefur verið staðið við og það varið með því að það sé ekki heimild á fjárlögum! Alltof oft kemur það upp að lög sem sett eru á Alþingi verða markleysa af þessum sökum. Eitt dæmi eru t.d. fasteignagjöld af stofnunum ýmiskonar sem Ríkið hefur ekki séð sóma sinn í að standa við eins og vera ber eða a.m.k. reynt að standa gegn því.
Ég er ekki talsmaður ríkisvæðingar og tel einstaklingana sjálfa best til þess fallna að ráðstafa sínum eignum og tekjum. Staðan er hinsvegar sú núna að Ríkið VERÐUR að koma að málum án tafar til að fá hjólin til að snúast áfram.
Það er sagt að á tímum þenslu eigi Ríkið fremur að halda að sér höndum í útgjöldum. Skuldir Ríkisins voru greiddar niður á þenslutímanum og það er vel og nú hefði átt að vera borð fyrir báru til að auka framkvæmdir á vegum opinberra aðila til að draga úr niðursveiflunni. Síðan skapast þessi slæma staða sem nú er uppi en samt sem áður ber Ríkinu skylda til að smyrja hjólin og hjálpa atvinnulífinu og sveitarfélögunum til að halda uppi atvinnu í landinu og koma okkur þannig smám saman út úr kreppunni. Það er nóg til af krónum, notum þær!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2008 | 14:20
Ekkert að marka Björgvin bankamálaráðherra!
Mér finnst stórundarlegt að fylgi Samfylkingarinnar sé að aukast. Er það vegna þess að Björgvin G. Sigurðsson hafi staðið sig svo vel? Maðurinn hefur jú verið með miklar yfirlýsingar um að allt sé gert til að ástandið komi ekki niður á almenningi meira en nauðsyn krefur og að bankarnir eigi að beita manneskjulegum aðferðum. Það er bara ekkert að marka manninn og það þekki ég frá fyrstu hendi.
Ég hef í dag heyrt í fólki þar sem bankarnir hafa lokað kortum, lækkað yfirdrætti á einum bretti og borið fólk út úr íbúðum, tekið af því ísskápana o.s.frv. og þar er ekki verið að sýna neina linkind eða tilslökun. Þetta er gert hjá fólki sem hefur ekkert af sér brotið og er jafnvel að standa í skilum með allt sitt þrátt fyrir allt.
Bankarnir segja svo við fólk að hendur þeirra séu bundnar því að Seðlabankinn standi á bakvið þetta. Þá þarf að grípa þar inn og láta hann fara eftir "stefnu stjórnvalda" varðandi manneskjulegt bankakerfi. Það var jú ekki almenningur sem kom okkur í þessa stöðu og menn þurfa núna að líta í eigin barm og ekki ganga fram með þessum hætti!
Látum ekki blekkjast af neinu froðusnakki í viðskiptaráðherra eða öðrum ráðamönnum. Það eru staðreyndirnar sem tala og ef menn geta ekki látið bankana fara eftir því sem þeim er fyrirskipað þá eru þeir ekki hæfir sem stjórnendur og eiga að víkja.
Minnihluti styður stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2008 | 20:09
Þegar rykið fer að setjast
Nú er fram komin skýrsla sem Landsbankinn lét gera í byrjun árs 2008 og fékk í hendur í apríl. Farið var yfir hana með höfundunum í júlí í sumar. Skýrslan var talin of viðkvæm til að birta hana og það kann að vera rétt. Sú spurning sem við hljótum hinsvegar að spyrja núna er hvað gerðu menn með efni hennar? Var eitthvað gert til að takmarka skaðann? Var reynt að snúa ofan af spilaborgunum sem svonefndir auðmenn og bankamenn höfðu byggt upp? Þetta þarf að rannsaka núna þegar rykið fer að setjast og við náum yfirsýn yfir það sem hefur verið að gerast að undanförnu.
Ég sagði hér áður að við hefðum átt og ættum að hlusta á Davíð Oddsson. Sömuleiðis hefði okkur átt að bera gæfa til að hlusta á fleiri góða menn sem reyndu af veikum mætti að vara við þeirri skelfilegu þróun sem var í gangi. Við tryggjum ekki eftir á en þjóðin kallar á réttlæti. Þeir sem komu okkur í þessa stöðu verða að sæta ábyrgð og það eru fyrst og fremst ævintýramennirnir í bönkunum og fjárglæframenn aðrir í kringum þá.
Við verðum að athuga það að orð Davíðs og ýmissa annarra sem reyndu að vara við þeim mönnum sem komu okkur meðal annarra í þessi vandræði voru gerð ómerk með gegndarlausum áróðri og einelti. Ýmsir af þeim sem núna eru með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn tóku þátt í þeim ljóta leik og ættu að skammast sín fyrir það.
Endalaust hefur verið snúið út úr viðtali sem var við Davíð Oddsson í Kastljósinu í síðustu viku. Það var alveg skýrt í mínum huga að hann var að tala við hrædda þjóð, hann var að stappa í hana stálinu og segja á máli sem allir skilja að við ætluðum ekki að fara að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum. Auðvitað bar ekki að skilja hann svo að við myndum ekki reyna að standa við skuldbindingar okkar sem þjóðar, það höfum við alltaf gert og munum vonandi geta áfram.
Það ber líka að hafa í huga að ekki eru nándar nærri allir óreiðumenn eða glæpamenn í þeim hópi sem stóð að bankaútrásinni. Margir þeirra töldu sig vera að gera góða hluti sem þeir líka voru að mörgu leiti. Það voru líka ytri aðstæður sem ollu því að fór sem fór. Það var hinsvegar gengið alltof langt og innan um og saman við voru óheiðarlegir menn sem sáust ekki fyrir í græðgi sinni.
Núna er hinsvegar verkefnið að ná aftur vopnum okkar og byggja upp að nýju. Samhliða þarf að byrja sem allra fyrst að vinna að rannsókn á því sem gerst hefur. Það þarf að rannsaka það hvernig staðið var skipulega að því innan bankanna að plata saklaust fólk til að setja sparnaðinn sinn sem það hafði önglað saman á mörgum árum inn í svonefnda peningamarkaðssjóði. Það þarf að ná í þær eignir sem fjárglæframenn hafa stungið undan og farið með í skjól í útlöndum og senda okkur reikninginn. Það þarf að sækja þessa menn til saka. Við þurfum líka að láta breska ráðamenn finna það að við látum ekki vaða yfir okkur með þeim hætti sem þeir gerðu.
Allt þetta þarf að vinna skipulega og af þeirri einurð og yfirvegun sem forsætisráðherrann okkar hefur sýnt í þeim hremmingum sem dunið hafa yfir að undanförnu. Ekki í einhverju fljótræði eða fyrirgangi sem aldrei endar vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 10:29
Hlustum á Davíð Oddsson
Það er enginn maður óskeikull og öll gerum við mistök. Fyrir mörgum árum var haft eftir Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, að hann væri óhræddur við að taka ákvarðanir og tiltölulega ánægður ef 60 eða 70 af hundraði þeirra reyndust réttar.
Eitt af því sem gert var undir ríkisstjórnarforystu Davíðs var að opna íslenskt hagkerfi, auka frelsi í viðskiptum og aflétta ýmiskonar ríkisafskiptum og höftum. Þetta var hárrétt ákvörðun og hún hefur fært okkur eitthvert mesta hagsældarskeið sem dæmi eru um. Hinsvegar láðist því miður að stýra þessu frelsi nægilega vel og af því súpum við seiðið nú. Misvitrir og óheiðarlegir menn nýttu sér aðstöðuna og komu þjóðinni í þessa afleitu stöðu. Allsekki má skilja þetta svo að ég telji alla þá sem staðið hafa að útrásinni vera óheiðarlega, heiðarlegir menn verða því miður undir í þessu líka um leið og efnahagskreppa skellur á um allan heim.
Því miður hefur okkur ekki auðnast að hlusta á varnaðarorð ýmissa vegna þeirrar þróunar sem komið hefur okkur í núverandi stöðu. Davíð Oddsson var einn þeirra sem ítrekað varaði við þróuninni en orð hans voru að engu gerð í dæmalausum áróðri og einelti sem her manna hefur stundað gegn honum í skjóli og á launaskrá "auðmanna". Snúið var út úr öllu sem maðurinn sagði og persóna hans rökkuð niður með öllum tiltækum ráðum. Þessi endaleysa náði svo hámarki þegar Bessastaðabóndinn hafnaði fjölmiðlafrumvarpinu sem ætlað var að koma böndum á samþjöppun eignarhalds á því sviði.
Núna höfum við fengið einstakt tækifæri. Við getum lært af mistökum undanfarinna ára og um leið byggt á þeim góða grunni sem íslenskt þjóðfélag og auðlindir landsins eru. Við þurfum að leitast við að skoða vel hvað hefur farið úrskeiðis undanfarin ár og draga hina raunverulegu sökudólga, sem misnotuðu fengið frelsi, til ábyrgðar. Fyrst og fremst þurfum við hinsvegar að byggja upp og nýta okkur þann góða grunn sem við höfum.
Ég vil vekja sérstaka athygli á grein eftir Baldur Hermannsson eðlisfræðing í Morgunblaðinu í dag laugardag á bls. 38. Þar er þessi dæmalausa saga Davíðs og eineltis gegn honum rakin á mjög kjarnyrtan og skýran hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2008 | 22:14
Stöndum við bakið á okkar forystufólki!
Það er eflaust að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um atburði síðustu daga í efnahagsmálunum en ekki verður þó orða bundist. Ég verð að segja það að ráðamenn okkar hafa staðist með eindæmum vel þá orrahríð sem á þeim hefur dunið síðustu daga. Margur mundi bogna ef ekki brotna undir viðlíka álagi sem þessir menn þurfa að þola og þá á ég við bæði ríkisstjórn, bankastjóra Seðlabankans og starfsmenn og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins, bankanna og margra annarra sem þetta mæðir mest á.
Ekki verður betur séð en að öll viðbrögð hafi, miðað við hinar erfiðu aðstæður, verið fumlaus og yfirveguð og hagur almennings borinn fyrir brjósti í öllu sem gert hefur verið. Það á ekki að leita að sökudólgum á meðan við erum að komast í gegnum þetta og sökudólgarnir eru ekki í hópi ráðamanna þótt margur vilji halda öðru fram. Það má örugglega vera vitur eftir á og segja þetta sagði ég nú og við þessu varaði ég. Það er svo auðvelt að setja sig í þessar stellingar og margur hefur eflaust haft rétt fyrir sér á þeim tíma. Við leysum hinsvegar ekkert núna með slíku tali.
Það sem við þurfum að gera er að halda ró okkar og styðja við okkar forystumenn í þeirra erfiða hlutverki. Á sama tíma þurfum við að styðja við þá sem verða fyrir barðinu á þessu með fjárhagslegu tapi eða missa jafnvel vinnuna sína og lífsviðurværi. Þeir sem sterkari eru andlega þurfa að styðja og styrkja hina sem veikari eru á svellinu. Samstaða og samhugur er það sem þarf á svona tímum. Þetta snýst nú einusinni bara um peninga og þótt þeir séu góðir til síns brúks þá er svo margt annað mikilvægara í lífinu.
Fréttamenn fara margir offari í því að ráðast á einstaka forystumenn sem allir eru að gera sitt besta í stöðunni. Sama gildir því miður um stjórnarandstöðuna. Hvert smáatriði er dregið fram og túlkað og mistúlkað og hinir og þessir sérfræðingar fengnir til að segja sitt álit. Það er ekkert skrítið þótt e.t.v. falli einhver ummæli í hita leiksins sem eftir á að hyggja hefðu betur verið ósögð eða að einstök atriði í framvindunni hefðu betur verið gerð einhvernveginn öðruvísi. Lykilatriðið er að stefnt sé í rétta átt og það gerum við tvímælalaust. Fréttamenn eiga að vera gagnrýnir, veita aðhald og krefja ráðamenn svara en það verður að vera gert málefnalega. Núna er hinsvegar ekki rétti tíminn til að vera með óþarfa aðgangshörku.
Ekki vildum við að okkar ráðamenn gengju fram eins og forsætisráðherra Breta og færu á taugum í hita leiksins og kæmu fram með viðlíka hætti og hann gerði. Hann er hinsvegar líka í erfiðri stöðu og hefur e.t.v. séð sér færi á að dreifa athyglinni frá eigin vandræðum með því að ráðast á íslenska banka og stjórnvöld. Vonandi tekst að leiðrétta þann misskilning sem með þessu varð á milli þjóðanna.
Langflest okkar tóku þátt í útrásinni á einhverjum tíma og þótti sniðugt að við værum að kaupa Danmörku eða leggja undir okkur heiminn í einhverri mynd hér og þar. Mörgum þótti þetta hinsvegar skrítið og veltu fyrir sér hvaðan menn hefðu peninga í þetta alltsaman. Það er svo auðvelt núna að vera vitur eftirá.
Margt af þessu gekk vel og hefði getað gengið upp ef ekki hefði komið til þau ragnarök í efnahagsmálum heimsins sem nú ríða yfir. Síðan voru ævintýramenn innanum sem fóru offari í græðgi og blekkingum og vonandi verða þeir dregnir til ábyrgðar þótt síðar verði. Til þess er ekki rétti tíminn núna. Þó mætti e.t.v. skoða að frysta eignir þessara manna á meðan að málin eru rannsökuð. Við skulum hinsvegar ekki falla í þá gildru að hafa samúð með þessum mönnum, þeim er nákvæmlega sama um almenning á Íslandi ólíkt okkar forystumönnum.
Ég segi það fullum fetum að ég treysti engum mönnum betur til að vinna úr þessari stöðu úr því sem komið er en þeim ráðamönnum sem eru við stjórnvölinn hjá okkur núna og óska þeim og fjölskyldum þeirra alls hins besta og vona að þau komist öll klakklaust í gegnum þessa orrahríð.
Gefum þessu fólki vinnufrið og hættum að brjóta það niður á ögurstundu. Heilt á litið erum við á réttri leið út úr þessari slæmu stöðu og það mun sannast á næstu vikum og mánuðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2008 | 00:10
Velkomin til Hveragerðis
Mjög hlýtt var í veðri í Hveragerði í dag eins og víðar á landinu. Hitinn fór í um 28°C eins og sjá má á myndinni hér til hægri. Flestir sem höfðu tækifæri til nýttu daginn til útivistar og börn léku sér í Varmánni sem mældist 26,8°C við Reykjafoss.
Hitametin féllu víða um land og óneitanlega veltir maður fyrir sér hvort hér sé á ferðinni einhver birtingarmynd hækkandi hitastigs á Jörðinni. En er það ekki bara óþarfi að velta sér upp úr því á svona dögum en njóta fremur veðursins á meðan það gefst.
Við fjölskyldan fórum norður um síðustu helgi og nutum veðurblíðunnar og góðra daga á Landsmóti skáta. Ég hef ekki áður kynnst því merka starfi sem skátahreyfingin leggur af mörkum og því hvernig unglingar og raunar fólk á öllum aldri geta skemmt sér mjög vel án neinskonar vímugjafa. Þarna er unnið mikið og merkt starf í þágu barna og unglinga.
Þema landsmótsins að þessu sinni var víkingatíminn og fengu skátarnir að kynnast af eigin raun handverki og ýmsu öðru frá þeim tíma.
Skátafélagið Strókur úr Hveragerði var með glæsilegan hóp á mótinu og þau settu upp afar metnaðarfulla tjaldbúð sem skreytt var með ýmsu móti. Á laugardeginum voru hóparnir á mótinu með kynningu á sínum félögum og bæjarfélögum og tókst kynning Stróks á Hveragerði afar vel. Þau voru með heimasmíðaðan jarðskjálftahermir, sjóðandi hver og gáfu gúrkubita, gulrætur, ís og blóm úr heimabænum sínum sem greinilegt var að þau eru mjög stolt af. Þeir sem eru í forsvari fyrir skátastarfi í Hveragerði eiga miklar þakkir skyldar fyrir sitt framlag til starfsins.
Seinni part sunnudagsins héldum við sem leið lá fram Eyjafjarðardalinn og upp á hálendið. Leiðin innst í Eyjafjarðardalnum og upp á hálendið suður af var fremur torfær og vegurinn ekki góður en leiðin skemmtileg að venju. Síðan var vegurinn ágætur það sem eftir var suður yfir Sprengisand inn á malbikið aftur við Hrauneyjafossvirkjun. Við renndum við í Laugafelli þar sem er hin ágætasta laug og jafnvel vatnið í salernunum er vel volgt. Ferðin frá jólahúsinu í Eyjafirði og til Hveragerðis tók rúma 8 klukkutíma og var vel þess virði enda góð tilbreyting frá þjóðvegakeyrslunni. Ég minnkaði loftið í dekkjunum í 12 pund (38 tommu dekk) og jeppinn rann þetta mjög ljúft þótt vegurinn væri grófur á köflum. Við vorum með tjaldvagninn meðferðis en hann er búinn loftpúðafjöðrun og var ekkert mál að draga hann þarna yfir.
Bloggar | Breytt 1.8.2008 kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2008 | 09:01
Enn af Bitruvirkjun
Þau mótmæli sem standa yfir þessa dagana bæði á Hellisheiði og í Helguvík minna enn og aftur á atburðina í vor og vetur þegar áætlanir um svonefnda Bitruvirkjun mættu mikilli andstöðu. Við sem vinnum að hagsmunum Hvergerðinga í þessu máli sem öðrum fengum að heyra það að við værum að eyðileggja fyrir atvinnuuppbyggingu í öðrum sveitarfélögum og værum jafnvel á móti álverum.
Fréttaflutningur og viðbrögð ýmissa hagsmunaaðila voru í meira lagi sérkennileg í framhaldi af áliti Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun og ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að fresta öllum undirbúningi þeirrar virkjunar. Því miður komu sjónarmið og hagsmunir Hveragerðisbæjar ekki nægilega skýrt fram í þessu ferli, hvorki í umhverfismati né í umfjöllun í fjölmiðlum og annarsstaðar.
Mig langar hér að neðan að leitast við að skýra okkar sjónarmið og hagsmuni í málinu.
Við sem erum í forsvari fyrir Hveragerði um þessar mundir erum að endurspegla mjög samstíga afstöðu bæjarbúa gegn Bitruvirkjun. Samstaðan um málið er alger innan bæjarstjórnar og skipulags- og bygginganefndar. Ástæður eru nokkrar en megin ástæðurnar eru annarsvegar nálægð virkjunarinnar við bæinn og ýmis neikvæð áhrif af þeim völdum og hinsvegar slæm áhrif á mjög mikilvægt og fallegt útivistarsvæði í næsta nágrenni bæjarins. Samhliða höfum við sett spurningamerki við óvissuþætti varðandi vatnsvernd, hreinsun útblásturs og förgun frárennslis frá virkjuninni.
Það virðist því miður vilja gleymast að Hveragerði er öflugur 2300 manna þéttbýliskjarni auk þess sem talsverður fjöldi fólks býr í dreifbýli í grenndinni. Þetta virtist nánast hafa gleymst í umhverfismatinu af einhverjum ástæðum sem okkur eru með öllu óskiljanlegar.
Ímyndum okkur að staðsetja ætti virkjun, sambærilega við Bitruvirkjun, á hæðunum ofan við Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og/eða Hafnarfjörð. Það er hætt við að íbúar þar yrðu ekki ánægðir með slíka ráðstöfun. Virkjunin væri staðsett í um 4-6 km fjarlægð frá efstu byggð í þessum bæjarfélögum og aðstæður að miklu leiti mjög svipaðar og fyrir Hveragerði ef virkjun yrði staðsett eins og áform voru um. Þar má nefna álíka nálægð við þéttbýliskjarna, hæðarmun, ríkjandi vindáttir í átt að þéttbýli, nálægð við vinsæl og falleg útivistarsvæði og nálægð við vatnsból og vatnsverndarsvæði. Ég vil hvetja fólk til að setja sig í spor Hvergerðinga og nágranna þeirra í þessu máli.
Nokkur öflugustu fyrirtæki og stofnanir í Hveragerði byggjast á ferðaþjónustu og þá ekki síst heilsutengdri ferðaþjónustu og þjónustu við aldraða. Sama má segja um fyrirtæki í næsta nágrenni bæjarins sem eru mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi á svæðinu. Þessi starfsemi er mjög viðkvæm fyrir þó ekki væri nema minnstu hættu á skaðlegri loftmengun. Þessi starfsemi nýtir umhverfi bæjarins mikið fyrir sína gesti. Hveragerði hefur nær enga eða í besta falli litla möguleika á uppbyggingu á iðnaði, orkufrekum eða öðrum.
Möguleikar bæjarins til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar felast fyrst og fremst í áðurnefndri starfsemi og skyldum greinum. Hveragerðisbær leggur mikla áherslu á umhverfismál og ég tel mikil tækifæri felast í enn aukinni áherslu á þau í framtíðinni og veit að samstarfsfólk mitt í bæjarstjórn er flest ef ekki allt sama sinnis.
Því ber líka að halda til haga að Hveragerðisbær hefur ekki sett sig gegn virkjun við Hverahlíð að því gefnu að mengunarvarnir verði í samræmi við yfirlýsingar og svör OR auk þess sem benda má á aðrar staðsetningar sem til greina hafa komið t.d. í Þrengslum sem eru mun fjær þéttbýli en hér um ræðir.
Þeir sem vilja virkja hafa sagt að með því að hætta við Bitruvirkjun væri OR að afsala sér einhverjum rétti til virkjana í framtíðinni og að þetta geti þýtt jafnvel endalok jarðhitavirkjana. Því fer víðs fjarri að Hveragerðisbær sé á móti jarðhitavirkjunum. Það er jafnvel engu líkara í umræðunni á stundum að þessi 130 MW sem þarna átti að virkja séu síðasta virkjanlega afl á Íslandi. Allt slíkt tal er ábyrgðarlaust og með öllu rangt. Ef svo væri hinsvegar að þetta væri síðasti möguleikinn á virkjun þá værum við mjög líklega komin á endimörk þess sem er ásættanlegt, þ.e. við værum farin að seilast inn á náttúruperlur og ganga of nærri lífsgæðum fólks með virkjun og ættum að segja stopp í eitt skipti fyrir öll. Þetta er hinsvegar ekki raunin, það eru fjölmargir virkjunarmöguleikar eftir í landinu sem væru í mun meiri sátt við fólkið og umhverfið.
Það ber að fagna því að stjórn OR áttaði sig á því fljótt og vel við endalok matsferlisins að það verður aldrei sátt um virkjun á því svæði sem Bitruvirkjun var ætlað að vera. Með því sannaðist að ferli umhverfismats og athugasemda er að virka þrátt fyrir allt. Því fólki sem situr í stjórn OR ber að hrósa fyrir að láta umhverfið njóta vafans og lífsgæði þeirra sem búa þarna í grenndinni.
Því hefur verið haldið fram að Skipulagsstofnun hafi jafnvel brotið lög með því að leggjast gegn Bitruvirkjun í áliti sínu. Það er vandséð hvað annað stofnunin gat gert í stöðunni. Borist hafði fjöldi mótmæla gegn þessari virkjun og flest af því sett fram með mjög málefnalegum hætti þar sem ótvírætt var sýnt fram á að virkjunin væri með öllu óásættanleg. Margir óvissuþættir koma fram í umhverfismatinu og engan veginn séð fyrir endann á þeim.
Ef það er ekki ástæða til að hætta við þessa framkvæmd þar sem fulltrúar heils, tiltölulega stórs bæjarfélags á íslenskan mælikvarða, með langflesta bæjarbúa á bakvið sig ásamt fjölmörgum öðrum leggjast eindregið gegn henni þá getum við alveg eins virkjað á öðrum náttúruperlum landins og afnumið lög og reglur um umhverfismat.
Og þá kem ég að kveikjunni að því að ég birti þessar hugleiðingar núna, þ.e. þeim mótmælaaðgerðum sem standa yfir gegn álverum og virkjunum þessa dagana. Ég vil ekki skipa mér í þann hóp og tel þau mótmæli ekki vera umhverfismálum á Íslandi til framdráttar. Það er alveg ljóst að ef við eigum að geta lifað í þessu landi verðum við að nýta gæði þess og auðlindir en við verðum að gera það í sátt við okkur sjálf og umhverfið.
Álver á Íslandi eru í eðli sínu umhverfisvæn, þ.e. á meðan þörf er fyrir það ál sem þau framleiða og mannkynið þarf á því að halda þá er betra fyrir umhverfið að það sé framleitt með umhverfisvænni raforku fremur en með raforku framleiddri með mengandi aðferðum annarsstaðar. Það er því misskilin umhverfisvernd að vera á móti álverum hér á landi. Það hefur sýnt sig að þau álver sem þegar eru risin hér skila miklu fyrir landið og íbúana í kring. Auðvitað eigum við að gera ítrustu kröfur til þessara fyrirtækja eins og annarra um mengunarvarnir og ekkert að slaka á skynsamlegum kröfum þar.
Jarðhitavirkjanir eiga líka fyllilega rétt á sér séu þær reistar í góðri sátt við umhverfið og fólkið í kring. Jarðhitinn er auðlind sem við Íslendingar höfum nýtt og eigum að nýta áfram eins og skynsamlegt er en þá verðum við líka að gera það þannig að slíkar virkjanir valdi ekki óásættanlegri loftmengun og gangi ekki of nærri umhverfinu.
Ég vil ekki nefna neina staði umfram aðra þar sem ég tel ásættanlegt að virkja jarðhita, slíkt kemur í ljós með vönduðum undirbúningi, rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum en þá verðum við líka að vera menn til að hætta við ef í ljós kemur að ekki næst nægileg sátt um framkvæmdina og að hún gengur of nærri umhverfinu.
E.t.v. fóru menn dálítið fram úr sér í áformum á Hellisheiði í því góðæri og miklu þenslu sem þá ríkti. Mönnum lá mikið á að nýta sér það að orkan var eftirsótt. Umhverfisvæn orka verður hinsvegar sífellt verðmætari og það eigum við að nýta okkur en ekki að selja hana á neinni útsölu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2008 | 18:19
Varmáin tilvalinn leikvöllur á góðviðrisdögum
Börnin í Hveragerði og aðkomubörn njóta þess oft að busla í ánni og þá oftast neðan við Reykjafoss. Áin er tiltölulega hlý og því hægt að busla þar tímunum saman og hafa mikið gaman að.
Ekki er víst að fiskurinn í ánni sé alltaf jafn hrifinn af þessu en mannfólkið á líka sinn rétt á að njóta náttúrunnar.
Segja má að þetta sé hálfgert leyndarmál Hvergerðinga, þ.e. þeir miklu útivistarmöguleikar sem eru í og við Varmánna.
Við hliðina á Reykjafossi er svo listigarður bæjarins þar sem t.d. er haldin kvöldvakan á bæjarhátíðinni Blómstrandi dagar.
Hér má sjá fleiri myndir úr Varmánni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2008 | 17:40
Frábært tjaldsvæði
Nú á tímum dýrtíðar á eldsneyti er vert að huga að því að vera ekki að leita langt yfir skammt í ferðalögunum. Ekki þarf að fara lengra en í Hveragerði til að finna eitt af bestu tjaldstæðum á landinu.
Aðstaðan er mjög góð og allt fyrir hendi sem ferðalangurinn þarf hvort sem hann er í göngutjaldi eða á stærstu gerð af húsbíl. Aðstöðuhúsið er afar snyrtilegt og í næsta nágrenni er stórt leiksvæði á skólalóð bæjarins. Sundlaugin í Laugaskarði sem þykir með þeim bestu á landinu er steinsnar í burtu. Ekki er heldur langt í bakarí, banka og veitingastaði.
Gönguleiðir eru fjölbreyttar og við allra hæfi. Stutt er t.d. að ganga upp á nýja hverasvæðið fyrir ofan Garðyrkjuskólann. Þá má heimsækja Listasafn Árnesinga sem er nánast á næsta götuhorni og fá sér kaffisopa og sjá metnaðarfullar listsýningar með því.
Fleiri myndir er að finna hér.
Bloggar | Breytt 21.7.2008 kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)