Gagnrýnislaus fréttaflutningur RÚV!

Í kvöldfréttum í sjónvarpinu í kvöld var stutt frétt eða öllu heldur fréttatilkynning sem Ríkisútvarpið birti algerlega gagnrýnislaust. "Fréttin" fjallaði í aðalatriðum um það að nú hefði Sveitarfélagið Ölfus hafið að nýju vinnu við breytingu á aðalskipulagi vegna Bitruvirkjunar og Orkuveita Reykjavíkur hefði hafið að nýju undirbúning að virkjun. Sagt var að sveitarfélagið fullyrti að komið hefði verið á móts við umhverfiskröfur og að strangar kröfur væru gerðar til frágangs.

Það er með ólíkindum að virðuleg stofnun í eigu allra landsmanna eins og RÚV skuli bera svona nokkuð á borð fyrir landsmenn og það í aðal fréttatíma kvöldsins. Það er eins fjarri sanni og hugsast getur að nokkuð það hafi breyst varðandi þessar áætlanir um Bitruvirkjun sem svari þeim kröfum sem gerðar hafa verið og þeirri gagnrýni sem t.d. Hvergerðingar hafa haft uppi varðandi framkvæmdina.

Í raun er málið þannig vaxið að Bitruvirkjun getur aldrei orðið ásættanleg framkvæmd fyrir Hveragerði. Nægir þar að nefna fáein atriði:

  1. Nálægð virkjunarinnar við byggð í Hveragerði er alltof mikil. Í því sambandi ætti að nægja að benda á meðfylgjandi mynd (sjá tengilinn sem er hér neðan við færsluna) sem sýnir samanburð á afstöðu virkjunarsvæðisins við Hveragerði annarsvegar og Þorlákshöfn hinsvegar ef virkja ætti á sambærilegum stað þar.
  2. Útblástur brennisteinsvetnis og annarra eitraðra lofttegunda frá blásandi borholum er ekki og verður ekki hægt að hreinsa. Ennfremur hefur enn ekki verið sýnt fram á hreinsun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun og mælingar sýna að mengunaráhrif í Hveragerði eru talsverð þaðan og frá Nesjavöllum þótt þær virkjanir séu mun lengra frá bænum en Bitruvirkjun yrði og auk þess ekki í ríkjandi vindátt eins og Bitruvirkjun yrði. Auk eiturefna má nefna annað sem lítið hefur verið rætt í umfjöllun og mati á Bitruvirkjun en það er veruleg gufumengun, þ.e. gufuútblástur er mikill frá svona virkjun og af allt öðrum stærðargráðum en áður hefur þekkst í Hveragerði eða nágrenni. Slík mengun er líka áhyggjuefni með tilliti til veðurfars og sjónmengunar.
  3. Virkjunin er ógnun við eina verðmætustu auðlind nútímans fyrir Hveragerði, þ.e. vatnsbólin þar sem hætta er á mengun þeirra frá afrennslisvatni og frá skolvatni við borun. Minnsti grunur um það að virkjunin geti valdið mengun í vatnsbólum er með öllu óásættanlegur. Ómengað neysluvatn er einhver verðmætasta auðlind sem til er og verður sífellt verðmætari.
  4. Önnur umhverfisáhrif Bitruvirkjunar yrðu óhjákvæmilega mikil og ekkert það hefur gerst sem dregur úr þeim frá því Skipulagsstofnun gaf sitt álit og hafnaði virkjuninni sem óásættanlegri.

Það er með öllu óskiljanlegt að haldið skuli áfram með áform um Bitruvirkjun með framangreint í huga. Hveragerðisbær og íbúar þar og í nágrenninu hafa mjög ríkra hagsmuna að gæta í þessu máli og hefur bæjarstjórn Hveragerðis alfarið og ítrekað lagst gegn framkvæmdinni. Það er með öllu óásættanlegt að nágrannasveitarfélag og orkufyrirtæki skuli ætla sér að valta svona yfir rúmlega 2300 manna sveitarfélag og stofna tilvist þess og grundvallar mannréttindum íbúanna í hættu.

Auk þess hafa fjölmargir málsmetandi aðilar lagst mjög hart gegn þessari framkvæmd og stutt Hvergerðinga í þeirri baráttu sem þeir hafa háð og ennfremur fært enn fleiri rök gegn framgangi málsins.

Ég vil hvetja fjölmiðla til að kynna sér allar hliðar þessa máls áður en þeir lepja upp það sem hentar virkjunaraðilunum. Ég vil ennfremur hvetja íbúa Ölfuss og okkar ágætu nágranna til að kynna sér málið og það hvernig bæjaryfirvöld í þeirra sveitarfélagi haga sér gagnvart nágrannasveitarfélaginu og í raun a.m.k. hluta íbúa síns eigin sveitarfélags líka.

Það er nóg komið af 2007 hegðun í þessu samfélagi og ættu flestir að hafa lært af biturri reynslu að það þarf að skoða allar hliðar máls vel áður en áfram er vaðið í villu og svíma og að það ber að hlusta á og taka mið af málefnalegri gagnrýni. Ef það hefði verið gert á ýmsum sviðum undanfarin ár þá væri þjóðin ekki eins illa stödd og raun ber vitni núna.

Bitruvirkjun er ekki til þess fallin að bjarga íslensku þjóðfélagi eða efnahag, til þess eru margir aðrir og mun betri kostir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband