Hvað er erfiðleikum háð?

Fréttinni um innheimtumál Kaupþings gegn Björgólfsfeðgum lýkur í næstsíðustu setningu með mjög undarlegri fullyrðingu: "...slíkt sé þó oft erfiðleikum háð" og virðist þá vísað til þess að það sé einhverjum sérstökum erfiðleikum háð að ná til eigna umræddra Björgólfsfeðga vegna skulda þeirra.

Hvað í ósköpunum er eiginlega átt við með þessu og hversvegna í veröldinni er verið að hnýta þessu þarna við? Er þetta haft eftir fulltrúum Kaupþings eða eitthvað sem Stöð 2 fann upp?

Ef um væri að ræða venjulegan Meðaljón væri þetta allavega ekki "erfiðleikum háð". Það er sjálfsögð krafa almennings á Íslandi að ekkert verði gefið eftir í þessu máli fremur en öðrum málum gagnvart þeim sem brotið hafa af sér í aðdraganda hrunsins. Það er alveg klárt að umræddir feðgar voru gerendur í aðdraganda hrunsins og eiga ekki að meðhöndlast með neinum silkihönskum.

Í raun ætti að setja sérstök lög um kyrrsetningu eigna þessara manna og annarra sem sæta rannsókn vegna hrunsins sem gæfu möguleika á að taka þær eignir sem til næst án frekari tafar. Vera má að slíkt væri "erfiðleikum háð" en ég vona að það sé verið að skoða slíkt í fullri alvöru. Brot þessara manna gegn þjóðinni eru slík að stjórnvöldum ber skylda til að beita öllum löglegum leiðum til að ná af þeim því sem hægt er.

Ég frábið mér að talsmenn eignarréttar (t.d. þingmenn Sjálfstæðisflokksins) fari að reyna að malda í móinn hvað þetta varðar, þessi brot eru því miður með þeim hætti að það verður að horfa framhjá slíku og beita óvenjulegum leiðum eftir því sem kostur er.

Best væri auðvitað ef þeir sem mest hafa unnið til saka gagnvart þjóðinni í þessu sambandi kæmu sjálfir fram og bæðust afsökunar og skiluðu því sem þeir gætu til baka í þjóðarbúið. Þeir yrðu menn af meiri við slíkt en það má þó ekki dragast öllu lengur ef einhverskonar von á að verða um fyrirgefningu.

Icesave málið hefur tröllriðið umræðunni undanfarið sem hefur valdið því að athyglin hefur beinst mest að Landsbankanum og þeim sem þar réðu ráðum. Það má ekki gleymast að það eru fleiri aðilar sem þarf að fjalla um og rannsaka.

Þeir aðilar sem vinna að rannsóknum á hruninu og saksókn vegna hugsanlegra brota í nafni þjóðarinnar  hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna og þá ber að styðja í hvívetna. Það er lífsnauðsynlegt fyrir framtíð og frið í íslensku samfélagi að aðdragandi og ástæður hrunsins séu gerðar upp.

Refsingar eru kannski ekki endilega lífsnauðsynlegar en uppgjör verður að fara fram og þeir sem eiga mestan þátt í því sem gerðist verða að leita sátta við þjóðina hvernig sem þeir gera það. Trúverðug afsökunarbeiðni og skil á því sem menn geta mögulega skilað er líka ákveðið uppgjör og "refsing" sem mundi stuðla að sáttum við þjóðina.


mbl.is Milljarðalán Björgólfsfeðga í innheimtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Eyþór,

Þó ég sé langt frá því að vera viss, þá reikna ég með að hér sé átt við að það gæti reynst erfitt að fá einhverjar eignir upp í þessar skuldir.  Björgólfur Guðmundsson er gjaldþrota og mér skilst að lítið sé í þrotabúinu.  Hvar þessar eignir eru niðurkomnar læt ég liggja á milli hluta - það er dómsstóla að fá úr skorið.  Einhversstaðar hljóta þessar þúsundir milljarða að vera niðurkomnar!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 17.8.2009 kl. 21:59

2 Smámynd: Eyþór H. Ólafsson

Sæll Arnór,

Takk fyrir athugasemdina. Trúlega er þetta rétt hjá þér. Við verðum að hafa þolinmæði til að láta hið lögformlega ferli hafa sinn gang þótt það sé stundum erfitt. Óþolinmæði og reiði margra er mikil og því vill umræðan á köflum verða mjög ómálefnaleg.

Við búum í réttarríki og langflestir vilja það áfram. Þess mikilvægara er að styðja vel og dyggilega við bakið á þeim aðilum sem vinna að rannsókn og saksókn þeirra mála sem tengjast hruninu og um leið að þrýsta á um það við stjórnvöld m.a. með málefnalegri og ákveðinni umræðu.

Kveðja,

Eyþór H. Ólafsson, 17.8.2009 kl. 22:08

3 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Blessaður Eyþór.

Ég er hjartanlega sammála þér um það, hvernig meðöndla ber glæpamennina, sem settu Ísland á hausinn.   En ég skil ekki alveg, hvað þú átt við með því að fullyrða, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu talsmenn eignaréttar.   Frjálshyggjan, sem kom öllu í bál og brand, er fyrst og fremst verk þeirra; Framsóknarmenn komu svo í kjölfarið og hægri armur Samfylkingar galt jáyrði sitt við öllu sukkinu.  En gleymdu því ekki, að frjálshyggjan er í raun árás á eignarétt fjöldans, hinum fáu til hagsbóta.  Hvað varð t.d. um "Þína verslun" hér í Hveragerð, þegar Bónus opnaði hér?  Hjónin sem ráku þá verslun neyddust til að loka.  Eignarréttur þeirra á versluninni, reyndist sem sagt einskis virði.  Hann varð að víkja fyrir eingarétti Bónusfeðga.  Við megum aldrei gleyma því, að eignarétturinn er pólitísk formúla og allar slíkar formúlur eru afstæðar.

Pjetur Hafstein Lárusson, 23.8.2009 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband