23.6.2009 | 15:56
Blóm í bæ um helgina
Þessa dagana er allt á fullu í Hveragerði við að leggja lokahönd á undirbúning fyrir blómasýninguna Blóm í bæ sem haldin verður núna um næstu helgi, dagana 26.-28. júní. Fjölmargir aðilar koma að sýningunni og mun hún verða hin glæsilegasta. Ekki síst mun bærinn skarta sínu fegursta.
Fjöldi manns hefur lagst á eitt við að gera þessa sýningu að veruleika og í anda kreppunnar hefur verið reynt að gera alla hluti með sem hagkvæmustum hætti. Fjölmargir bæjarbúar hafa tekið sig til og gert átak í garðinum sínum allt í anda blómabæjarins.
Sjá má nánar um dagskrá helgarinnar hér.
Sérstaklega má nefna smágarðasamkeppnina, lifandi raunverulegt brúðkaup á bökkum Varmár, harmónikkutónlist, íslenskan grænmetismarkað, blómaskreytingar og fjölmargt fleira.Veðurspáin er afar góð fyrir helgina og um að gera að skella sér í Hveragerði og njóta fallegra blóma, umhverfis og mannlífs.
Benda má á að í Hveragerði er eitt besta tjaldsvæði landsins og tilvalið að planta ferðaheimilinu þar um helgina.
Einnig má geta þess að á laugardeginum kl. 11 mun verða vígt svonefnt trjásafn á skógræktarsvæðinu undir Hamrinum. Safnið er á því formi að nokkur tré hafa verið merkt með nafni og ýmsum fleiri upplýsingum og geta gestir skógarins því rölt um og glöggvað sig á tegundum, vaxtarhraða, uppruna o.fl.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.