Ræða forseta bæjarstjórnar í Hveragerði 17. júní 2009

Birti hér að neðan til gamans ræðu sem ég flutti fyrr í dag sem forseti bæjarstjórnar Hveragerðis:

 

Kæru bæjarbúar og gestir,

 

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum til hamingju með daginn og þennan fallega bæ okkar sem við megum öll og eigum að vera stolt af.

 

Það er ekki til fyrirmyndar að vitna í sjálfan sig en þó langar mig að gera það í þetta skiptið. Í ræðu minni hér á þessum stað á 17. júní 2006 sagði ég eftirfarandi:

„Síðustu ár hefur oft hvarflað að mér að við séum að missa sjónar á því sem raunverulega skiptir máli í lífinu. Það eru stærstu og mestu fréttirnar í fjölmiðlum þegar hlutir í fyrirtækjum skipta um eigendur, hvernig þróun er á fjármálamörkuðum á hverjum tíma eða hvernig baráttan gengur um völdin í samfélaginu. Þetta eru allt mikilvægir hlutir og hafa sitt að segja um það hvernig þjóðfélaginu og þar með okkur gengur að lifa af.

Peningar eru hreyfiafl. Peningar eru ekki tilgangur í sjálfu sér en þeir eru nauðsynlegt tæki til að lifa af og til að ná fram þeim úrbótum sem við viljum gera á umhverfi okkar og aðstæðum. Við megum ekki missa sjónar á því sem raunverulega skiptir máli. Hver einstaklingur skiptir máli og er jafn mikilvægur öðrum hversu mikilvægt eða merkilegt sem starf hans eða hlutverk kann að vera að öðru leiti. Hver maður hefur sína sérstöðu, drauma og væntingar til lífsins.“

 

Svo mörg voru þau orð og greinilega í tíma töluð þótt ég segi sjálfur frá. Það hefur sannast rækilega núna undanfarna mánuði.

Því miður hefur umfjöllunin um bankahrunið og afleiðingar þess tekið við og tröllriðið fjölmiðlaumfjölluninni í staðinn.

Auðvitað eru það alltsaman mikilvæg og áríðandi mál að fjalla um og leysa en eigum við ekki að líta okkur nær. Eigum við ekki að rifja upp hvað er okkur mikilvægt í raun og veru?

Við eigum okkar afburða fallega land og öll þess gögn og gæði. Það er heldur ekki úr vegi að leggja áherslu á það á þessum degi að við eigum sjálfstæði þjóðarinnar sem eina okkar dýrmætustu auðlind. Um það verðum við að standa vörð hvað sem á dynur.

Við þurfum að sýna samstöðu, hlúa að börnunum og framtíðinni en ekki falla í gryfju svartnættis, bölsýni eða hefndarþorsta. Það þarf að sjálfsögðu að draga þá til ábyrgðar sem hana bera og hafa brotið af sér en um leið verðum við að muna það að við flutum langflest sofandi að feigðarósi og í raun hlaut ævintýrið að enda einsog lagt var upp með.


Hveragerðisbær er sterkt samfélag með skýra framtíðarsýn. Við viljum vera umhverfisvænt, menningarlegt og mannvænt bæjarfélag þar sem öllum íbúum og gestum líður sem allra best.

Við viljum hlúa sem best að ungviðinu og öllum sem minna mega sín. Við viljum búa öldruðum gott ævikvöld. Við viljum skapa atvinnulífi bæjarins góðan jarðveg til að vaxa og dafna. Við viljum vera bæjarfélag sem hefur jákvæð áhrif á þjóðfélagið allt, bæjarfélag sem smitar út góðum gildum. Hingað eiga gestir að geta sótt bæði hvíld og kraft til að takast á við hversdaginn. Héðan eiga að koma vörur og áhrif sem við getum öll verið stolt af.

Við börnin vil ég segja þetta: Krakkar, þið búið í besta landi í heimi, njótið þess alla daga í leik og starfi, Íslandi allt!

Ég vil að lokum þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa að undirbúningi hátíðarhaldanna hér í dag og óska ykkur öllum enn og aftur gleðilegrar þjóðhátíðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband