Hvernig skapast aukin atvinna?

Eitt af því allra mikilvægasta sem íslensk þjóð þarf á að halda núna er uppbygging atvinnutækifæra. Vinstri flokkarnir hafa ekki margt fram að færa í þeim efnum. Það eina sem þeim dettur í hug sem lausn á vandanum er að reyna að skattleggja þjóðina meira og lækka laun hjá ríkisstarfsmönnum.

Það gæti í sjálfu sér verið ágætt að spara með því að lækka laun hjá ríkisstarfsmönnum en þá þarf að skoða afleiðingarnar og hvað í raun kemur út úr því. Við fyrstu sýn gæti t.d. 10% lækkun launa þýtt yfir 12 milljarða sparnað en þegar málið er skoðað nánar, t.d. hversu mikill hluti launanna skilar sér aftur í ríkiskassann og til sveitarfélaga þá stendur ekki nema um helmingur þessarar fjárhæðar eftir.

Það er í raun einfalt hvernig skapa á ný störf:

  1. Efnahagsumhverfið þarf að vera stöðugt
  2. Vextir þurfa að vera viðráðanlegir
  3. Skattar á fyrirtæki mega ekki vera of háir
  4. Skattar á einstaklinga mega ekki drepa niður frumkvæðisviljann
  5. Menntakerfið þarf að vera öflugt og geta af sér nýsköpun og ný tækifæri
  6. Ríkið þarf að vera öflugt við að taka á móti nýjum tækifærum utanfrá (stóriðja o.fl.)
  7. Nýsköpunarsjóðir þurfa að vera öflugir og opnir fyrir nýjum tækifærum

Séu framangreindir þættir í lagi blómstra einstaklingarnir og búa til ný tækifæri á færibandi. Sé þetta umhverfi hinsvegar ekki í lagi mun ekkert gerast. Atvinnutækifæri verða ekki til á skrifstofum stjórnmálaflokka eða á Alþingi. Þessir aðilar eiga að einbeita sér að því að tryggja umhverfið en láta einstaklingsframtakið um rest.

Stóriðja hefur skapað fjölmörg atvinnutækifæri hér á síðustu áratugum og mun gera það áfram ef rétt er á málum haldið. Slík uppbygging þarf að sjálfsögðu að gerast í sátt við umhverfið en um leið má ekki drepa hana niður með of flóknu kerfi.

Allir sem til þekkja hljóta að viðurkenna að uppbyggingin á Austurlandi í kringum Alcoa hefur valdið byltingu í atvinnumálum á því svæði. Þótt það megi e.tv. benda á einhverja neikvæða þætti og tómar íbúðir o.þ.h. eru það smámunir miðað við þau jákvæðu áhrif sem þetta hefur. Það þekki ég af eigin reynslu.

Sú aðferðafræði sem Vinstri grænir fylgja mun ekki stuðla að atvinnuuppbyggingu. Fái þeir að ráða munum við skrúfast niður í langvarandi kreppu og fátækt. Þeir eru á móti því að við nýtum orku landsins og hleypum hér inn stóriðjufyrirtækjum.

Það er að sumu leiti skiljanlegt að fólk hneigist til að kjósa VG vegna þess að hann er alger andstæða þeirrar þróunar sem orðið hefur á undanförnum tveimur áratugum. Hann hefur verið samkvæmur sjálfum sér við að vera á móti flestu. Það má hinsvegar ekki gleymast að hagur þjóðarinnar hefur aldrei verið betri og atvinna aldrei meiri en á þessum tíma. Við höfum haft það mjög gott en það voru gerð mistök sem ollu því á endanum að illa fór.

Samfylkingin er í raun ekki stjórntæk, hún stendur ekki saman og hefur í raun enga haldbæra stefnu. Þetta sýndi sig við hrunið í haust, þegar formaðurinn veiktist stóð ekki steinn yfir steini og flokkurinn molnaði í sundur. Það eina sem Samfylkingin virðist hafa fram að færa er ESB. Maður hlýtur að velta fyrir sér hversvegna þjóðir eins og t.d. Írland og Ítalía ganga ekki inn í ESB núna þar sem þær eru í megnustu vandræðum, jú það er vegna þess að þær eru þar nú þegar.

Framsóknarflokkurinn er flokkur sem vel má treysta til að byggja upp atvinnu, það hefur hann sýnt á liðnum árum. Hann hefur endurnýjað sig talsvert og hefur vonandi sagt skilið við S hópa og slíkt.

Borgarahreyfingin er í raun óánægjuframboð vegna ástandsins en óskrifað blað að öðru leiti.

Ég eyði ekki orðum á svokallaða Lýðræðishreyfingu.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur atvinnuuppbyggingar, því getum við treyst. Hvað sem má segja um fortíðina og þau mistök sem gerð hafa verið á undanförnum árum. Margir hafa kennt flokknum um það sem úrskeiðis fór og vissulega á hann sinn hlut af sökinni. Það hefur flokkurinn viðurkennt og farið í gegnum í vetur.

Við verðum líka að viðurkenna að það var við mjög ramman reip að draga að gera eitthvað gegn þeirri þróun sem átti sér stað síðustu 5-6 árin. Þar má minna á Baugsmálið, fjölmiðlafrumvarpið, umræðu um samþjöppun á matvælamarkaði, úttekt Davíðs á 400 þúsund krónunum í Kaupþing o.m.fl. Allt var þetta túlkað þannig að flokkurinn væri á móti einstökum fyrirtækjum og einstaklingum!

Vissulega hef ég einsog aðrir farið í gegnum reiðina og sárindin í vetur. Ég hef orðið reiður út í Sjálfstæðisflokkinn og forystu hans. En þegar ég hef síðan farið í gegnum málin og kynnt mér það sem að baki liggur þá hef ég séð hvernig við flutum sofandi að feigðarósi og það hefði í raun verið alveg sama hvað Sjálfstæðisflokurinn hefði gert, það hefði ekki verið hægt að koma í veg fyrir það sem gerðist. Til þess var aldan of stór og það mátti ekkert segja eða gera.

Mín niðurstaða er skýr, ég get ekki kosið annað en Sjálfstæðisflokkinn ef ég hugsa um framtíðina og þá uppbyggingu sem nauðsynleg er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband