27.1.2009 | 20:02
Ekki hlustað á grasrótina!
Þann 27. nóvember síðastliðinn sendi ég forystumönnum Sjálfstæðisflokksins skilaboð um það sem ég taldi þá vera frumforsendu þess að við sjálfstæðismenn gætum haldið haus áfram og sinnt þeirri forystu sem er nauðsynleg til að komast sæmilega klakklaust í gegnum það ástand sem myndast hefur. Skilaboðin voru um:
- tafarlausar breytingar á stjórn og bankastjórn Seðlabankans þar sem fagmenn yrðu kallaðir til starfa.
- að skipta þyrfti um forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins með sömu formerkjum og Seðlabankans.
- að starfsemi bankanna og sala eigna og meðferð öll verður að vera sem allra mest fyrir opnum tjöldum.
- að skipta þurfi út í ráðherraliðinu. Jafnvel þó einstaklingar sem í hlut eiga beri hugsanlega enga beina sök á því hvernig fór er alveg skýrt að þeir bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem úrskeiðis fóru og ráðuneyti og stofnanir sinntu ekki eða náðu ekki að sinna því eftirliti sem nauðsynlegt var. Þessir ágætu menn yrðu menn af meiri ef þeir tækju sjálfir pokann sinn.
- að rannsóknarvinna sem framundan er verður að vera algerlega hafin yfir allan vafa um trúverðugleika og heiðarleika.
- að tryggja verður með öruggum, augljósum og opnum hætti að þeir menn sem voru í forystu innan fyrrverandi bankakerfis og aðilar þeim tengdir (svonefndir auðmenn) komist ekki aftur að kjötkötlunum og geti hrifsað til sín eignir og byrjað leikinn að nýju. Jafnframt að "eignir" þessara manna verði gerðar upptækar sé þess kostur með löglegum og réttlátum hætti.
Svo mörg voru þau orð. Ég veit að fleiri komu þessum eða líkum skilaboðum til forystunnar um svipað leiti. Ég hef ítrekað þetta síðan og áreiðanlega margir fleiri á svipuðum nótum. Hvorki forystumönnum Sjálfstæðisflokksins né ríkisstjórninni að öðru leiti bar gæfa til að hlusta á grasrótina í flokkunum eða greina eindreginn vilja og reiði þjóðarinnar.
Það er oft talað um að ekki eigi að persónugera hlutina og það er alveg rétt svo lengi sem ekki er um bein afbrot eða afglöp í starfi að ræða. Fólk í opinberum störfum á einfaldlega að víkja sé vafi um traust þjóðarinnar á því til þeirra starfa sem það er valið eða ráðið til og/eða ef stofnanir sem það ber ábyrgð á standa sig ekki sem skyldi. Þannig eru hlutir ekki persónugerðir heldur er þjóðin og hennar hagur látinn njóta vafans en ekki einstaklingar. Hefðu ákveðnir einstaklingar borið gæfu til að segja af sér "á réttum tíma" hefði þeim verið fyrirgefið og þeir jafnvel átt möguleika á endurkomu í opinber störf aftur síðar. Núna er hætt við að allt slíkt sé of seint.
Athugasemdir
Rétt og vel að orði komist. Því miður var farið aðra átt, með "smjörklípu aðferðinni" og "humma þetta af sér" aðferðina.
Þ.a.l mun Sjálfstæðisflokkurinn aldrei ná fyrri styrk. Þeir eru margir ex-Sjálfstæðismenn eins og ég sem geta ekki hugsað sér að kjósa flokkinn aftur því "frelsið þitt endar þar sem mitt frelsi byrjar". Það var gengið á mitt "frelsi" og þar ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn er eins og gömlu Bolsarnir, munu aldrei gera upp fortíðina né viðurkenna mistök sín.
Birgir Gunnarsson, 2.2.2009 kl. 13:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.