Skiptum út krónunni tafarlaust

Þeir sem nennt hafa að fylgjast með blogginu mínu hérna undanfarið hafa e.t.v. tekið eftir því að ég hef hvatt til þess að taka verði á málum af yfirvegun og að ekki megi persónugera hlutina. Við þurfum samhliða að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem við erum komin í og til þess þurfum við að hugsa flesta hluti upp á nýtt og ef núverandi ráðamönnum er það ekki mögulegt eða þeir gera það ekki þurfum við að skipta þeim út.

Ég var að hlusta á Silfur Egils núna áðan eins og eflaust margir fleiri. Þar voru m.a. Andri Snær og síðan Ársæll Valfells og Þórólfur Matthíasson. Í þeirra máli komu fram mjög margir áhugaverðir punktar. Ég tek undir skoðun þeirra Ársæls og Þórólfs að við eigum að skipta krónunni út án tafar hvort sem er fyrir norska krónu eða evru eða annan gjaldmiðil. Ég hef lengi haft það á tilfinningunni að krónan sé okkur til trafala og í raun löngu handónýt sem gjaldmiðill.

Á þeim árum sem við hjónin vorum að kaupa okkar fyrstu íbúð upplifðum við yfir 120% verðbólgu og í raun þá eignaupptöku sem það þýddi. Núna eru margir að upplifa mjög svipað. Látum þetta ekki henda aftur, hendum krónunni án tafar.

Forsætisráðherra verður að hlusta á þjóðina og þótt hann verði að sjálfsögðu að vera staðfastur og ekki hlaupa eftir öllu sem hinum ýmsu vitringum kann að detta í hug þá verður hann og ríkisstjórnin að hlusta á fleiri en stjórn Seðlabankans. Það er kominn tími á að skipta út bæði bankastjórn og bankaráði Seðlabankans. Sú peningamálastefna sem Seðlabankinn hefur fylgt hér er gengin sér til húðar og við þurfum nýjar hugmyndir og það sem allra fyrst.

Það er ekki kominn tími á að skipta út ríkisstjórninni ennþá einfaldlega vegna þess að við höfum ekki val eins og staðan er núna og kosningar eru ekki það sem við þurfum á að halda í augnablikinu. Núverandi ríkisstjórn ber að sitja a.m.k. fram á næsta ár og reyna að greiða úr málunum. Hún má hinsvegar ekki þvælast fyrir því að þjóðin geti náð sér upp úr þessari afleitu stöðu.

Andri Snær hefur lag á að skoða hlutina frá öðrum sjónarhornum en fólk almennt. Það er rétt hjá honum að stór hluti okkar kynslóðar er að bíða mikið skipbrot þessa dagana. Við þurfum að hugsa hlutina alveg upp á nýtt og út úr því getur hæglega komið mun betra þjóðfélag en það sem við höfum haft undanfarin ár, þjóðfélag sem setur manngildi ofar verðgildi. Nýtum þetta tækifæri vel.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Sæll Eyþór.  Nú er ég sammála þér.  Mér hefur þú hafa viljað verja Seðlabankastjórnina og ríkistjórnina hingað til en þú ert greinilega farin að efast um mátt hennar til að hafa dug til að taka á málum.  E´g er 100% sammála þér varðandi krónuna en ég er samt ekki viss um EVRU, mér hefur fundist að það séu komnir brestir í það myntbandalag.

Einar Vignir Einarsson, 16.11.2008 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband