31.7.2008 | 00:10
Velkomin til Hveragerðis
Mjög hlýtt var í veðri í Hveragerði í dag eins og víðar á landinu. Hitinn fór í um 28°C eins og sjá má á myndinni hér til hægri. Flestir sem höfðu tækifæri til nýttu daginn til útivistar og börn léku sér í Varmánni sem mældist 26,8°C við Reykjafoss.
Hitametin féllu víða um land og óneitanlega veltir maður fyrir sér hvort hér sé á ferðinni einhver birtingarmynd hækkandi hitastigs á Jörðinni. En er það ekki bara óþarfi að velta sér upp úr því á svona dögum en njóta fremur veðursins á meðan það gefst.
Við fjölskyldan fórum norður um síðustu helgi og nutum veðurblíðunnar og góðra daga á Landsmóti skáta. Ég hef ekki áður kynnst því merka starfi sem skátahreyfingin leggur af mörkum og því hvernig unglingar og raunar fólk á öllum aldri geta skemmt sér mjög vel án neinskonar vímugjafa. Þarna er unnið mikið og merkt starf í þágu barna og unglinga.
Þema landsmótsins að þessu sinni var víkingatíminn og fengu skátarnir að kynnast af eigin raun handverki og ýmsu öðru frá þeim tíma.
Skátafélagið Strókur úr Hveragerði var með glæsilegan hóp á mótinu og þau settu upp afar metnaðarfulla tjaldbúð sem skreytt var með ýmsu móti. Á laugardeginum voru hóparnir á mótinu með kynningu á sínum félögum og bæjarfélögum og tókst kynning Stróks á Hveragerði afar vel. Þau voru með heimasmíðaðan jarðskjálftahermir, sjóðandi hver og gáfu gúrkubita, gulrætur, ís og blóm úr heimabænum sínum sem greinilegt var að þau eru mjög stolt af. Þeir sem eru í forsvari fyrir skátastarfi í Hveragerði eiga miklar þakkir skyldar fyrir sitt framlag til starfsins.
Seinni part sunnudagsins héldum við sem leið lá fram Eyjafjarðardalinn og upp á hálendið. Leiðin innst í Eyjafjarðardalnum og upp á hálendið suður af var fremur torfær og vegurinn ekki góður en leiðin skemmtileg að venju. Síðan var vegurinn ágætur það sem eftir var suður yfir Sprengisand inn á malbikið aftur við Hrauneyjafossvirkjun. Við renndum við í Laugafelli þar sem er hin ágætasta laug og jafnvel vatnið í salernunum er vel volgt. Ferðin frá jólahúsinu í Eyjafirði og til Hveragerðis tók rúma 8 klukkutíma og var vel þess virði enda góð tilbreyting frá þjóðvegakeyrslunni. Ég minnkaði loftið í dekkjunum í 12 pund (38 tommu dekk) og jeppinn rann þetta mjög ljúft þótt vegurinn væri grófur á köflum. Við vorum með tjaldvagninn meðferðis en hann er búinn loftpúðafjöðrun og var ekkert mál að draga hann þarna yfir.
Athugasemdir
Sæll Eyþór.
Rakst á bloggið þitt. Gaman að lesa.
Innlitskveðja
Einar Örn Einarsson, 31.7.2008 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.