Enn af Bitruvirkjun

Við Varmá í HveragerðiÞau mótmæli sem standa yfir þessa dagana bæði á Hellisheiði og í Helguvík minna enn og aftur á atburðina í vor og vetur þegar áætlanir um svonefnda Bitruvirkjun mættu mikilli andstöðu. Við sem vinnum að hagsmunum Hvergerðinga í þessu máli sem öðrum fengum að heyra það að við værum að eyðileggja fyrir atvinnuuppbyggingu í öðrum sveitarfélögum og værum jafnvel á móti álverum. 

Fréttaflutningur og viðbrögð ýmissa hagsmunaaðila voru í meira lagi sérkennileg í framhaldi af áliti Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun og ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að fresta öllum undirbúningi þeirrar virkjunar. Því miður komu sjónarmið og hagsmunir Hveragerðisbæjar ekki nægilega skýrt fram í þessu ferli, hvorki í umhverfismati né í umfjöllun í fjölmiðlum og annarsstaðar.

Mig langar hér að neðan að leitast við að skýra okkar sjónarmið og hagsmuni í málinu.

Við sem erum í forsvari fyrir Hveragerði um þessar mundir erum að endurspegla mjög samstíga afstöðu bæjarbúa gegn Bitruvirkjun. Samstaðan um málið er alger innan bæjarstjórnar og skipulags- og bygginganefndar. Ástæður eru nokkrar en megin ástæðurnar eru annarsvegar nálægð virkjunarinnar við bæinn og ýmis neikvæð áhrif af þeim völdum og hinsvegar slæm áhrif á mjög mikilvægt og fallegt útivistarsvæði í næsta nágrenni bæjarins. Samhliða höfum við sett spurningamerki við óvissuþætti varðandi vatnsvernd, hreinsun útblásturs og förgun frárennslis frá virkjuninni.

Það virðist því miður vilja gleymast að Hveragerði er öflugur 2300 manna þéttbýliskjarni auk þess sem talsverður fjöldi fólks býr í dreifbýli í grenndinni. Þetta virtist nánast hafa gleymst í umhverfismatinu af einhverjum ástæðum sem okkur eru með öllu óskiljanlegar.

Ímyndum okkur að staðsetja ætti virkjun, sambærilega við Bitruvirkjun, á hæðunum ofan við Reykjavík, Kópavog, Garðabæ og/eða Hafnarfjörð. Það er hætt við að íbúar þar yrðu ekki ánægðir með slíka ráðstöfun. Virkjunin væri staðsett í um 4-6 km fjarlægð frá efstu byggð í þessum bæjarfélögum og aðstæður að miklu leiti mjög svipaðar og fyrir Hveragerði ef virkjun yrði staðsett eins og áform voru um. Þar má nefna álíka nálægð við þéttbýliskjarna, hæðarmun, ríkjandi vindáttir í átt að þéttbýli, nálægð við vinsæl og falleg útivistarsvæði og nálægð við vatnsból og vatnsverndarsvæði. Ég vil hvetja fólk til að setja sig í spor Hvergerðinga og nágranna þeirra í þessu máli.

Nokkur öflugustu fyrirtæki og stofnanir í Hveragerði byggjast á ferðaþjónustu og þá ekki síst heilsutengdri ferðaþjónustu og þjónustu við aldraða. Sama má segja um fyrirtæki í næsta nágrenni bæjarins sem eru mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi á svæðinu. Þessi starfsemi er mjög viðkvæm fyrir þó ekki væri nema minnstu hættu á skaðlegri loftmengun. Þessi starfsemi nýtir umhverfi bæjarins mikið fyrir sína gesti. Hveragerði hefur nær enga eða í besta falli litla möguleika á uppbyggingu á iðnaði, orkufrekum eða öðrum.

Möguleikar bæjarins til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar felast fyrst og fremst í áðurnefndri starfsemi og skyldum greinum. Hveragerðisbær leggur mikla áherslu á umhverfismál og ég tel mikil tækifæri felast í enn aukinni áherslu á þau í framtíðinni og veit að samstarfsfólk mitt í bæjarstjórn er flest ef ekki allt sama sinnis.

Því ber líka að halda til haga að Hveragerðisbær hefur ekki sett sig gegn virkjun við Hverahlíð að því gefnu að mengunarvarnir verði í samræmi við yfirlýsingar og svör OR auk þess sem benda má á aðrar staðsetningar sem til greina hafa komið t.d. í Þrengslum sem eru mun fjær þéttbýli en hér um ræðir.

Þeir sem vilja virkja hafa sagt að með því að hætta við Bitruvirkjun væri OR að afsala sér einhverjum rétti til virkjana í framtíðinni og að þetta geti þýtt jafnvel endalok jarðhitavirkjana. Því fer víðs fjarri að Hveragerðisbær sé á móti jarðhitavirkjunum. Það er jafnvel engu líkara í umræðunni á stundum að þessi 130 MW sem þarna átti að virkja séu síðasta virkjanlega afl á Íslandi. Allt slíkt tal er ábyrgðarlaust og með öllu rangt. Ef svo væri hinsvegar að þetta væri síðasti möguleikinn á virkjun þá værum við mjög líklega komin á endimörk þess sem er ásættanlegt, þ.e. við værum farin að seilast inn á náttúruperlur og ganga of nærri lífsgæðum fólks með virkjun og ættum að segja stopp í eitt skipti fyrir öll. Þetta er hinsvegar ekki raunin, það eru fjölmargir virkjunarmöguleikar eftir í landinu sem væru í mun meiri sátt við fólkið og umhverfið.

Það ber að fagna því að stjórn OR áttaði sig á því fljótt og vel við endalok matsferlisins að það verður aldrei sátt um virkjun á því svæði sem Bitruvirkjun var ætlað að vera. Með því sannaðist að ferli umhverfismats og athugasemda er að virka þrátt fyrir allt. Því fólki sem situr í stjórn OR ber að hrósa fyrir að láta umhverfið njóta vafans og lífsgæði þeirra sem búa þarna í grenndinni.

Því hefur verið haldið fram að Skipulagsstofnun hafi jafnvel brotið lög með því að leggjast gegn Bitruvirkjun í áliti sínu. Það er vandséð hvað annað stofnunin gat gert í stöðunni. Borist hafði fjöldi mótmæla gegn þessari virkjun og flest af því sett fram með mjög málefnalegum hætti þar sem ótvírætt var sýnt fram á að virkjunin væri með öllu óásættanleg. Margir óvissuþættir koma fram í umhverfismatinu og engan veginn séð fyrir endann á þeim.

Ef það er ekki ástæða til að hætta við þessa framkvæmd þar sem fulltrúar heils, tiltölulega stórs bæjarfélags á íslenskan mælikvarða, með langflesta bæjarbúa á bakvið sig ásamt fjölmörgum öðrum leggjast eindregið gegn henni þá getum við alveg eins virkjað á öðrum náttúruperlum landins og afnumið lög og reglur um umhverfismat.

Og þá kem ég að kveikjunni að því að ég birti þessar hugleiðingar núna, þ.e. þeim mótmælaaðgerðum sem standa yfir gegn álverum og virkjunum þessa dagana. Ég vil ekki skipa mér í þann hóp og tel þau mótmæli ekki vera umhverfismálum á Íslandi til framdráttar. Það er alveg ljóst að ef við eigum að geta lifað í þessu landi verðum við að nýta gæði þess og auðlindir en við verðum að gera það í sátt við okkur sjálf og umhverfið.

Álver á Íslandi eru í eðli sínu umhverfisvæn, þ.e. á meðan þörf er fyrir það ál sem þau framleiða og mannkynið þarf á því að halda þá er betra fyrir umhverfið að það sé framleitt með umhverfisvænni raforku fremur en með raforku framleiddri með mengandi aðferðum annarsstaðar. Það er því misskilin umhverfisvernd að vera á móti álverum hér á landi. Það hefur sýnt sig að þau álver sem þegar eru risin hér skila miklu fyrir landið og íbúana í kring. Auðvitað eigum við að gera ítrustu kröfur til þessara fyrirtækja eins og annarra um mengunarvarnir og ekkert að slaka á skynsamlegum kröfum þar.

Jarðhitavirkjanir eiga líka fyllilega rétt á sér séu þær reistar í góðri sátt við umhverfið og fólkið í kring. Jarðhitinn er auðlind sem við Íslendingar höfum nýtt og eigum að nýta áfram eins og skynsamlegt er en þá verðum við líka að gera það þannig að slíkar virkjanir valdi ekki óásættanlegri loftmengun og gangi ekki of nærri umhverfinu.

Ég vil ekki nefna neina staði umfram aðra þar sem ég tel ásættanlegt að virkja jarðhita, slíkt kemur í ljós með vönduðum undirbúningi, rannsóknum og mati á umhverfisáhrifum en þá verðum við líka að vera menn til að hætta við ef í ljós kemur að ekki næst nægileg sátt um framkvæmdina og að hún gengur of nærri umhverfinu.

E.t.v. fóru menn dálítið fram úr sér í áformum á Hellisheiði í því góðæri og miklu þenslu sem þá ríkti. Mönnum lá mikið á að nýta sér það að orkan var eftirsótt. Umhverfisvæn orka verður hinsvegar sífellt verðmætari og það eigum við að nýta okkur en ekki að selja hana á neinni útsölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband