Furðulegur málflutningur!

Það var í besta falli furðulegt að hlusta á málflutning þeirra Jóhanns Haukssonar og Hallgríms Helgasonar í Silfri Egils í dag.

Hallgrímur er fullur af heift út í Sjálfstæðisflokkinn og leiðtoga hans í fortíð og nútíð og það er ekkert nýtt. Að heyra síðan hvernig Ragnar Reykás birtist í hans málflutningi er það sem veldur mér furðu. Það er útaf fyrir sig gott ef hann er, ásamt fleirum, að átta sig á því að e.t.v. hafi ríkisstjórnin ekki verið á réttri leið með Icesave samningana. Hann viðurkenndi jafnvel að forsetinn hafi haft rétt fyrir sér með því að hafna lögunum þótt hann hafi síðan verið opinberlega úthrópaður fyrir af fulltrúum stjórnarflokkanna með hætti sem ekki þekkist í sögu íslenska lýðveldisins.

Jóhann Hauksson var uppfullur af því að við ættum skilyrðislaust að borga Icesave og mættum allsekki valda okkur frekari álitshnekki með því að hafna því. Hann fór síðan háðulegum orðum um þjóðaratkvæðagreiðslur sem voru honum ekki til álitsauka. Semsagt enn ein rolan sem veit í raun lítið hvað hann er að tala um og stýrist af ómerkilegri pólitík en ekki málefnalegu mati á stöðunni.

Síðan var m.a. viðtal við hollenskan prófessor, Sweder Van Vijnbergen, sem komst alveg að kjarna málsins. Ábyrgðin er allsekki öll okkar Íslendinga og okkar eftirlits, heldur líka og ekki síður Seðlabanka Hollands og fjármálaeftirlits Bretlands. Þessar raddir eru sem betur fer að ná yfirhöndinni erlendis að því er virðist þótt þeir aðilar sem tóku rangar ákvarðanir í hollenskri og breskri stjórnsýslu hafi enn ekki áttað sig og vilji það e.t.v. ekki þar sem þeir halda að þeir myndu líta illa út við það.

Lykilatriðin í Icesave deilunni eru eftirfarandi:

  1. Það er Breta og Hollendinga að koma og "rukka", þ.e. í raun að leita eftir samningum, ef þeir telja sig eiga eitthvað inni. Þeir tóku ákvörðun um að greiða út inneignir í Icesave án þess að hafa nokkuð fullnægjandi í hendi um að Íslendingar ætluðu eða yfirleitt ættu að greiða þann kostnað.
  2. Landsbankinn var einkafyrirtæki sem varð gjaldþrota. Þegar slíkt gerist er það þrotabúið sem er notað til að standa undir kröfum í búið. Það á líka að gilda um Icesave en þar sem um innlánsbanka var að ræða þá kemur einnig til innistæðutryggingasjóður og það sem í honum var.
  3. Vegna eðlis þess sem gerðist og ábyrgðar íslenska fjármálaeftirlitsins má vel vera að rétt sé að Íslendingar sem þjóð taki þátt í kostnaði við mistök Breta og Hollendinga - þessi þáttur er pólitísk ákvörðun. Þar með er ekki sagt að við eigum að opna buddu íslenskra skattgreiðenda upp á gátt og bjóðast til að borga bara allan brúsann með háum vöxtum!
  4. Það að íslensk stjórnvöld undirrituðu eitthvert minnisblað um greiðslu Icesave "skuldarinnar" þegar þau voru alveg upp við vegg rétt eftir hrunið, með hrunið bankakerfi í fanginu, með hryðjuverkalög Breta á bakinu o.fl. er engan veginn grundvöllur að samkomulagi um að við borgum allan brúsann.
Því miður hefur verið afar illa haldið á hagsmunum Íslendinga alveg frá hruninu, að ekki sé talað um aðdragandann. Nú er mál að linni og að allir stjórnmálaflokkarnir leggist á eitt að laga klúðrið eftir sig og standi a.m.k. saman um þetta mál hvað sem öðru líður. Þetta er mórölsk krafa þjóðarinnar svo að þessir sömu flokkar öðlist hugsanlega eitthvað trúnaðartraust!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband