Styrkjaumræðan

Því miður virðist stór hluti umræðunnar fyrir þessar kosningar fjalla um þá styrki sem stjórnmálaflokkar og frambjóðendur þeirra hafa þegið á liðnum árum. Ljóst er af því sem fram hefur komið að styrkjaframlög hafa verið komin langt yfir öll velsæmismörk. Ég held að stjórnmálamönnum hafi verið orðið þetta ljóst þegar árið 2006 og því komust þeir að samkomulagi um lög um fjármál stjórnmálaflokka.

Til þess að skapa traust og trú á stjórnmálunum þarf að opna öll gögn um fjármálaumhverfi stjórnmálamanna og flokka á síðustu árum, jafnvel allt frá 2001 þegar þensluskeiðið hófst sem lauk með bankahruninu í haust. Þetta næst væntanlega ekki fyrir kosningarnar núna en það koma aðrar kosningar eftir þær og þá þarf þetta allt að liggja skýrt fyrir.

Ég held að núna þurfum við hinsvegar að hefja okkur upp yfir þessa umræðu og snúa okkur að þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í efnahagslífinu. Við þurfum að velja eins vel og okkur er unnt það stjórnmálaafl sem við trúum að geti unnið að því að koma okkur í gegnum hremmingarnar.

Ég trúi því að langflestir ef ekki allir sem bjóða sig fram til forystu í stjórnmálum vilji vel. Hinsvegar eru áherslurnar og leiðirnar misjafnar og við verðum að horfa til þess hvaða stefna eða stefnur hafa skilað okkur mestu í fortíðinni. Því miður hefur vinstri stefna ekki skilað okkur árangri hingað til og mun ekki gera það. Við höfum brennt okkur á slíkum stjórnum þótt langt sé orðið síðan síðast þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystu síðustu 18 árin. Auðvitað getum við gert eina tilraunina enn en viljum við það raunverulega?

Við megum ekki láta reiði yfir mistökum sem gerð hafa verið á undanförnum árum blinda okkur þannig að við sjáum ekki að margt var rétt og vel gert. Þjóðfélagið var opnað, fjármagn til velferðarmála var aukið verulega, kaupmáttur jókst mikið, skattar voru lækkaðir, frelsi var aukið og tækifærin voru mikil. Við höndluðum aukið frelsi ekki að öllu leiti en við getum lært mikið af því og nýtt okkur til framtíðar.

Við eigum ekki að fórna sjálfstæði eða sjálfsforræði þjóðarinnar á altari reiðinnar eða hræðslunnar. Við erum kjarkmikil og kraftmikil þjóð sem vel getur risið úr öskustónni á eigin forsendum og orðið fyrirmyndarþjóð að nýju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband