Glæsilegt framtak!

Vegagerðin og samgönguráðherra eiga heiður skilinn fyrir að koma þessu máli í höfn.

Sú útfærsla sem þarna var kynnt er alveg ásættanleg þótt vissulega hefði verið best á sjá tvöföldun alla leið sem allra fyrst. Hún kemur þó vonandi síðar á þann kafla sem útaf mun standa. Staða efnahagsmála er þannig núna að við þurfum að fara gætilega og sú leið sem fara á er góð málamiðlun.

Með þessu skrefi lýkur vonandi áralangri baráttu sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi og ýmissa fleiri aðila fyrir endurbótum á þessari leið. 

Með þessu mikilvæga skrefi sjáum við notendur vegarins loksins fram á veginn, framtíðar uppbyggingin hefur verið ákveðin og nú er bara að bretta upp ermarnar og byrja. Fjármögnunin á framhaldinu kemur svo vonandi fljótlega og vil ég hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að styðja við það svo að þessi mikilvæga framkvæmd klárist fljótt og vel.


mbl.is Breikkun kostar 15,9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í stjórnarkreppu?

Ekki lítur þetta björgulega út, þegar búið a.m.k. 10% af mögulegum líftíma og engin stjórn orðin til ennþá. Vonandi erum við ekki að stefna inn í stjórnarkreppu! Þetta er það sem getur gerst þegar fólk hleypur frá skyldum sínum og lætur eitthvað annað en þjóðarhagsmuni ráða gjörðum sínum.
mbl.is Ný ríkisstjórn eftir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljum við svona vinnuaðferðir?

Í ræðu sinni á fundinum í dag gerði Geir ágæta grein fyrir sinni hlið og hlið Sjálfstæðisflokksins á þeim atburðum sem orðið hafa undanfarið og því hvernig stjórnarslitin bar að. Hann rakti líka þær hugmyndir sem ræddar hefðu verið í desember varðandi breytingar í ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.

Af umfjöllun Geirs, þ.e. ef ekki er reynt að snúa út úr henni, þá sést að unnið hefur verið að þessum málum af fullum heilindum af hálfu Sjálfstæðisflokksins en sama er ekki að segja um Samfylkinguna því miður, a.m.k. ekki núna undir það síðasta. Auðvitað þurfti að vinna hlutina í réttri röð og ekki mátti fara á taugum. Staðreyndin er hinsvegar sú að þessi vinna gekk of hægt og ekki var nægilega vel gerð grein fyrir henni opinberlega. Við getum kannski nagað okkur í handarbökin yfir því hverju sem það er um að kenna.

Það er ljóst að ekki er hægt að vinna með þeim hætti að stjórnir og stjórnendur mikilvægra stofnana einsog Seðlabanka og Fjármálaeftirlits verði óstarfhæfar.

Ég kvíði næstu vikum og er hræddur um að sú stjórn sem nú er í burðarliðnum muni ekki bæta hlutina, a.mk. ekki til lengri tíma litið. Þau munu trúlega grípa til ýmissa ráðstafana sem eru vænlegar til vinsælda og þjóðin hefur að mörgu leiti beðið í ofvæni eftir en hvort það verður með réttum og farsælum hætti leyfi ég mér að draga í efa þó ég voni það besta.

Það er enn í góðu gildi gamalt máltæki sem sagði: VARIST VINSTRI SLYSIN!

Vinstri stjórnir hafa aldrei skilað Íslandi og Íslendingum farsæld til lengri tíma.


mbl.is Geir: Stjórnuðust af hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

冰島 = Ísland

Ísland kemst víða í fréttirnar þessa dagana, sjá þessa síðu:

http://hk.news.yahoo.com/article/090126/8/aeh9.html

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði, sjá www.aldis.is, er með kínverskan skiptinema sem opnar nýjar víddir í reynsluheimi fjölskyldu hennar og vina.


Ingibjörg út úr skápnum!

Í grein í mbl í dag á bls. 14 undir fyrirsögninni "Skorti kraft og dirfsku" kemur Ingibjörg Sólrún heldur betur út úr skápnum með það hver var raunveruleg ástæða þess að ekki náðist samkomulag um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Orðrétt segir hún:

"Af hverju hefði ég átt að líta á það sem sérstakt verkefni mitt að láta konu úr Sjálfstæðisflokknum verða fyrsta til að taka við þessu embætti [forsætisráðherra - innskot eho] þegar annar möguleiki var í boði. Ég hlýt alltaf að sýna mínum flokki hollustu og þar með flokkssystur minni."

Þar höfum við það, það er ekki hagur þjóðarinnar sem er í fyrirrúmi heldur Flokksins. Það kann að vera að málin hafi sum hver gengið hægt síðustu 100 dagana en eflaust eru margar skýringar á því. Það hefði örugglega verið farsælla og hagkvæmara fyrir þjóðina að viðhalda stjórnarsamstarfinu fram að kosningum í vor og þá sérstaklega ef það voru ekki stærri atriði en þetta sem báru á milli!

Það er t.d. að koma í ljós núna að lagasetning var í undirbúningi sem hefði leyst málefni varðandi Seðlabanka og Fjármálaeftirlit með löglegum hætti án óeðlilegs kostnaðar fyrir ríkissjóð. Þetta hefur vissulega gengið alltof hægt en hverju það er um að kenna er ekki gott að segja. Kannski var Samfylkingin ekki nægilega virk eða samstæð eða þá að aðrar eðlilegri skýringar eru á þessum seinagangi. Það þurfti hinsvegar að segja betur frá því sem var í vinnslu og skapa þannig traust og sátt meðal þjóðarinnar.


Ekki hlustað á grasrótina!

Þann 27. nóvember síðastliðinn sendi ég forystumönnum Sjálfstæðisflokksins skilaboð um það sem ég taldi þá vera frumforsendu þess að við sjálfstæðismenn gætum haldið haus áfram og sinnt þeirri forystu sem er nauðsynleg til að komast sæmilega klakklaust í gegnum það ástand sem myndast hefur.  Skilaboðin voru um:

  • tafarlausar breytingar á stjórn og bankastjórn Seðlabankans þar sem fagmenn yrðu kallaðir til starfa.
  • að skipta þyrfti um forstjóra og stjórn Fjármálaeftirlitsins með sömu formerkjum og Seðlabankans. 
  • að starfsemi bankanna og sala eigna og meðferð öll verður að vera sem allra mest fyrir opnum tjöldum. 
  • að skipta þurfi út í ráðherraliðinu.  Jafnvel þó einstaklingar sem í hlut eiga beri hugsanlega enga beina sök á því hvernig fór er alveg skýrt að þeir bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem úrskeiðis fóru og ráðuneyti og stofnanir sinntu ekki eða náðu ekki að sinna því eftirliti sem nauðsynlegt var. Þessir ágætu menn yrðu menn af meiri ef þeir tækju sjálfir pokann sinn.
  • að rannsóknarvinna sem framundan er verður að vera algerlega hafin yfir allan vafa um trúverðugleika og heiðarleika.
  • að tryggja verður með öruggum, augljósum og opnum hætti að þeir menn sem voru í forystu innan fyrrverandi bankakerfis og aðilar þeim tengdir (svonefndir auðmenn) komist ekki aftur að kjötkötlunum og geti hrifsað til sín eignir og byrjað leikinn að nýju. Jafnframt að "eignir" þessara manna verði gerðar upptækar sé þess kostur með löglegum og réttlátum hætti.

Svo mörg voru þau orð. Ég veit að fleiri komu þessum eða líkum skilaboðum til forystunnar um svipað leiti. Ég hef ítrekað þetta síðan og áreiðanlega margir fleiri á svipuðum nótum. Hvorki forystumönnum Sjálfstæðisflokksins né ríkisstjórninni að öðru leiti bar gæfa til að hlusta á grasrótina í flokkunum eða greina eindreginn vilja og reiði þjóðarinnar.

Það er oft talað um að ekki eigi að persónugera hlutina og það er alveg rétt svo lengi sem ekki er um bein afbrot eða afglöp í starfi að ræða. Fólk í opinberum störfum á einfaldlega að víkja sé vafi um traust þjóðarinnar á því til þeirra starfa sem það er valið eða ráðið til og/eða ef stofnanir sem það ber ábyrgð á standa sig ekki sem skyldi. Þannig eru hlutir ekki persónugerðir heldur er þjóðin og hennar hagur látinn njóta vafans en ekki einstaklingar. Hefðu ákveðnir einstaklingar borið gæfu til að segja af sér "á réttum tíma" hefði þeim verið fyrirgefið og þeir jafnvel átt möguleika á endurkomu í opinber störf aftur síðar. Núna er hætt við að allt slíkt sé of seint.


Sjálfstæðisflokkurinn og ESB

Það er engan veginn sjálfgefið að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins komist að þeirri niðurstöðu að það sé orðið okkur Íslendingum hagfellt að ganga inn í ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur margoft farið vandlega yfir það hagsmunamat sem er nauðsynlegt til að taka ákvörðun um aðild. Niðurstaðan hefur hingað til verið sú að við værum betur sett utan sambandsins. Það kann vel að vera að niðurstaðan verði önnur núna. Það mun þroskuð og yfiveguð lýðræðisleg niðurstaða Landsfundar flokksins leiða í ljós í lok janúar.

Við eigum að forðast það í lengstu lög að hrekjast inn í ESB vegna þeirrar stöðu sem þjóðin stendur frammi fyrir núna. Hitt kann vel að vera að umfang ESB sé orðið það mikið og tengsl okkar við önnur svæði ekki það sterk lengur að okkur sé betur borgið innan sambandsins en utan. Þannig getur verið að staðan sé orðin sú að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið dugi ekki lengur til að tryggja okkar hagsmuni gagnvart ESB.

Ég fagna því að forysta flokksins og miðstjórn hafi ákveðið að flýta Landsfundinum. Sú kreppa sem við nú eigum við að etja gerir það að verkum að mjög gagnlegt er fyrir flokkinn að kalla saman þetta æðsta stjórnvald sitt og fara yfir stöðuna. Landsfundir Sjálfstæðiflokksins eru jafnan fjölmennur vettvangur þar sem tekist er á um stefnumörkun flokksins og framtíðarsýn. Þar eru þau grundvallargildi sem flokkurinn byggist á höfð að leiðarljósi og jafnan komist að niðurstöðu sem flokksmenn geta fylkt sér um. Þannig verður það einnig nú.

Núna undanfarið hefur neikvæði tilfinningaskalinn fengið fulla nýtingu. Ég eins og aðrir hef bæði orðið vonsvikinn og reiður og leitað að sökudólgum. Ég virði hinsvegar þá yfirvegun sem ráðamenn okkar hafa sýnt þrátt fyrir allt. Núna sér fyrir endann á svonefndri Icesave deilu og er það vel og vekur vonir um að staðan fari að lagast. Við munum sjá vaxandi atvinnuleysi þegar líður á veturinn en það tímabil mun verða stutt og ég hef fulla trú á að við sjáum betri tíð með blóm í haga þegar fer að vora bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.


Skiptum út krónunni tafarlaust

Þeir sem nennt hafa að fylgjast með blogginu mínu hérna undanfarið hafa e.t.v. tekið eftir því að ég hef hvatt til þess að taka verði á málum af yfirvegun og að ekki megi persónugera hlutina. Við þurfum samhliða að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem við erum komin í og til þess þurfum við að hugsa flesta hluti upp á nýtt og ef núverandi ráðamönnum er það ekki mögulegt eða þeir gera það ekki þurfum við að skipta þeim út.

Ég var að hlusta á Silfur Egils núna áðan eins og eflaust margir fleiri. Þar voru m.a. Andri Snær og síðan Ársæll Valfells og Þórólfur Matthíasson. Í þeirra máli komu fram mjög margir áhugaverðir punktar. Ég tek undir skoðun þeirra Ársæls og Þórólfs að við eigum að skipta krónunni út án tafar hvort sem er fyrir norska krónu eða evru eða annan gjaldmiðil. Ég hef lengi haft það á tilfinningunni að krónan sé okkur til trafala og í raun löngu handónýt sem gjaldmiðill.

Á þeim árum sem við hjónin vorum að kaupa okkar fyrstu íbúð upplifðum við yfir 120% verðbólgu og í raun þá eignaupptöku sem það þýddi. Núna eru margir að upplifa mjög svipað. Látum þetta ekki henda aftur, hendum krónunni án tafar.

Forsætisráðherra verður að hlusta á þjóðina og þótt hann verði að sjálfsögðu að vera staðfastur og ekki hlaupa eftir öllu sem hinum ýmsu vitringum kann að detta í hug þá verður hann og ríkisstjórnin að hlusta á fleiri en stjórn Seðlabankans. Það er kominn tími á að skipta út bæði bankastjórn og bankaráði Seðlabankans. Sú peningamálastefna sem Seðlabankinn hefur fylgt hér er gengin sér til húðar og við þurfum nýjar hugmyndir og það sem allra fyrst.

Það er ekki kominn tími á að skipta út ríkisstjórninni ennþá einfaldlega vegna þess að við höfum ekki val eins og staðan er núna og kosningar eru ekki það sem við þurfum á að halda í augnablikinu. Núverandi ríkisstjórn ber að sitja a.m.k. fram á næsta ár og reyna að greiða úr málunum. Hún má hinsvegar ekki þvælast fyrir því að þjóðin geti náð sér upp úr þessari afleitu stöðu.

Andri Snær hefur lag á að skoða hlutina frá öðrum sjónarhornum en fólk almennt. Það er rétt hjá honum að stór hluti okkar kynslóðar er að bíða mikið skipbrot þessa dagana. Við þurfum að hugsa hlutina alveg upp á nýtt og út úr því getur hæglega komið mun betra þjóðfélag en það sem við höfum haft undanfarin ár, þjóðfélag sem setur manngildi ofar verðgildi. Nýtum þetta tækifæri vel.


Hversvegna var Icesave ekki stöðvað?

Það er rétt sem kemur fram hjá Sigurði Einarssyni að það er mjög einkennilegt að Fjármálaeftirlitið og ráðuneyti bankamála skyldu ekki stöðva Icesave ævintýrið þegar í marsmánuði. Fyrir það þarf viðskiptaráðherra og hans ráðuneyti vissulega að svara og er eitt af því sem rannsaka þarf á næstunni.

Það er vissulega líka skoðunarvert hversvegna fjármálafyrirtæki voru hindruð í að gera upp í evrum á sínum tíma. Í því sambandi má t.d. benda á skoðun viðskiptaráðs frá 8. mars á þessu ári sem sjá má hér: http://www.vi.is/files/2139112675uppgjor7.pdf. Hvort það var alfarið formaður bankastjórnar Seðlabankans eða aðrir innan Seðlabankans sem stóðu að hans áliti á málinu læt ég liggja á milli hluta og vara enn einusinni við því að persónugera þessa hluti. Þetta þarf að skoða eins og það þarf að endurskoða alla peningamálastefnuna eins og hún leggur sig.

Sigurður segir að það hafi verið mistök að flytja ekki höfuðstöðvar bankans úr landi. Ég man vel eftir umræðum um það að ekki mætti missa öflug fyrirtæki einsog Kaupþing úr landi og að ráðamenn mættu ekki stuðla að því að þau hrektust úr landi. Því miður hefði það þó sennilega verið farsælast eftir á að hyggja. Andinn var einfaldlega sá að það mátti ekki gagnrýna útþenslu bankanna eða útrásina yfirleitt. Við getum líka spurt okkur hvort samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðla og almennt slök frammistaða fjölmiðla við gagnrýna og vitræna umfjöllun um það sem var að gerast hafi átt sinn þátt í því að það fór sem fór.


mbl.is Stærstu mistökin að flytja ekki Kaupþing úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misbeiting valds gegn Íslendingum

Geir H. Haarde sýnir enn einu sinn að hann er réttur maður á réttum stað í þeirri slæmu stöðu sem við erum komin í. Hann endurtekur hér líka í raun það sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði í frægu og margmistúlkuðu Kastljóssviðtali á dögunum, þ.e. að íslenska ríkið og íslenska þjóðin muni ekki borga skuldir sem einkafyrirtæki hefur stofnað til jafnvel þótt það sé íslenskt. Það er óskiljanlegt með öllu ef fólk ætlast til að við hlaupum til í þeim efnum.

Við látum ekki stórþjóðir kúga okkur möglunarlaust. Það getur vel verið að þetta verði erfitt en að láta kúga okkur til að skrifa upp á skuldir sem misvitrir fjármálamenn hafa stofnað til og skuldbinda þannig komandi kynslóðir, slíkt kemur ekki til greina.

Allskyns "vitringar" hafa á því skoðanir hvernig taka eigi á málum og ef forsætisráðherra mundi eltast við þá vitleysu alla þá værum við miklu verr sett en raun ber vitni. Sem betur fer er sú ekki raunin.

Ég vil ítreka nauðsyn þess að öll sú atburðarás sem leiddi til hruns bankanna og sem síðan hefur orðið verði krifjuð til mergjar á heiðarlegan og opinn hátt og þeir sóttir til saka sem til þess hafa unnið. Pólitískt uppgjör mun svo koma í framhaldinu þegar við höfum náð tökum á stöðunni og getum farið að vinna okkur út úr þessu afleita ástandi sem nú ríkir. Til þess þarf vinnufrið en um leið nauðsynlegt aðhald og eftirfylgni við þá sem ráða. Stjórnlaus reiði og nornaveiðar skila engu nema meira tjóni fyrir land og þjóð.


mbl.is Við hættum frekar við lánið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband