Vönduð vinnubrögð?

Eitt af því sem a.m.k. flest sveitarfélög kappkosta eru vönduð vinnubrögð við skipulagsvinnu þar sem farið er að lögum og reglum þar um og unnið er með Skipulagsstofnun að því að hafa hlutina í lagi. Ennfremur er reynt að sætta sjónarmið og gæta allra mikilvægra hagsmuna við gerð skipulagsins og breytingar á því.

Samráð er haft við Skipulagsstofnun með lögformlegum hætti og þess á milli líka með óformlegum hætti til að fá góð ráð til að gæta þess að allt sé rétt gert og að ferlið sé gagnsætt og vandað. Hjá Skipulagsstofnun starfar mjög hæft fólk sem fer vel yfir skipulagsvinnuna og gefur umsagnir sem skipulagsyfirvöld vinna eftir og lagfæra það sem betur má fara.

Mjög athyglisvert er að kynna sér umsagnir Skipulagsstofnunar vegna nýlega auglýstrar breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem Bitruvirkjun er aftur tekin á dagskrá í óþökk mjög margra hagsmunaaðila.

Öll bréfin ásamt öðrum gögnum um breytinguna er að finna hér.

Eftirfarandi eru tilvitnanir úr síðasta bréfinu frá Skipulagsstofnun áður en breytingin var auglýst, þ.e. úr bréfi 3:

„Skipulagsstofnun er ósammála því að sveitarfélagið hafi tekið tillit til athugasemda með því að fresta skipulagi um tíma og leggja tillöguna óbreytta fram að nýju.“

Annað dæmi úr niðurlagi sama bréfs: „Sveitarfélagið hefur ekki svarað athugasemdum sem fram komu vegna fyrri auglýsingar á breytingu á Aðalskipulagi Ölfuss 2002-2014 vegna Bitruvirkjunar.“

Enn eitt dæmi úr sama bréfi: „Skipulagsstofnun telur að enn sé mótsögn í tillögunni þar sem á einum stað í umhverfisskýrslu er fullyrt að um og yfir 180 MW af orku sé sjálfbær nýting en á öðrum stað segir að áhrif framkvæmdarinnar á jarðhitageyminn séu óljós.“

Í lok þessa síðasta bréfs segir Skipulagsstofnun síðan:

"Skipulagsstofnun telur að Sveitarfélagið Ölfus hafi ekki svarað athugasemdum stofnunarinnar frá 30. mars 2009 að öllu leyti, sbr. ofangreindar athugasemdir. Skipulagsstofnun telur hinsvegar tímabært að tillagan fái almenna umræðu og gerir því ekki athugasemd við að tillagan verði auglýst skv. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga."

Ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort hér er virkilega um vönduð vinnubrögð að ræða af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss.

Hin almenna umræða er semsagt hafin og vil ég hvetja alla sem áhuga hafa og hagsmuna hafa að gæta til að kynna sér þessi gögn og jafnframt að mótmæla harðlega því stórslysi sem yrði ef Bitruvirkjun yrði samþykkt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband